Yngra fólk óánægðara með bráðaþjónustu í sinni heimabyggð á landsbyggðinni

Ljósmynd: Heilbrigðisráðuneytið.

Rúmlega helmingur (55%) íbúa á landsbyggðinni er ánægður með stöðu núverandi fyrirkomulags bráðaþjónustu í sinni heimabyggð. Nokkur munur er á þessu viðhorfi eftir heilbrigðisumdæmum þar sem ánægðastir eru þeir sem búa á Norðurlandi og Vesturlandi, en síst þeir sem búa á Vestfjörðum og Suðurnesjum. Ánægja með fyrirkomulag þjónustunnar eykst með hækkandi aldri. Minnst er ánægjan hjá þeim sem eru 18-29 ára (42%) en mest hjá 70 ára og eldri (63%). 

Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins, þar sem birtar eru  niðurstöður könnunar sem Gallup gerði fyrir ráðuneytið á viðhorfum fólks á landsbyggðinni til bráðaþjónustu í heimabyggð. Könnunin veitir m.a. innsýn í ólík viðhorf og væntingar fólks til þjónustunnar s.s. eftir búsetu, aldri, reynslu af bráðaþjónustu í heimabyggð og ýmsum fleiri þáttum. Niðurstöðurnar veita vísbendingar um styrkleika bráðaþjónustu í landinu og hvaða þætti hennar þarf helst að efla á hverju svæði. Þær geta því nýst við stefnumótun og þróun bráðaþjónustu í landinu.

Bætt mönnun talin mikilvæg

Aðspurðir um þætti sem gætu aukið öryggi bráðaþjónustu við fólk í heimabyggð svara flestir því til að bætt mönnun á næstu heilsugæslustöð eða næsta sjúkrahúsi myndi skipta mestu en margir nefna einnig styttri viðbragðstíma sjúkraflutninga, þ.e. með sjúkrabílum, þyrlu eða sjúkraflugvél. Fram kemur munur á svörum eftir heilbrigðisumdæmum, sem endurspeglar hvort íbúar reiða sig í meira mæli á sjúkrabíla eða sjúkraflug. Af einstökum þjónustuþáttum bráðaþjónustu sem spurt er um telja flestir mikilvægast að bæta bráðaþjónustu á næstu heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi vegna minni háttar veikinda eða slysa en bætt fæðingarþjónusta skorar einnig hátt, sérstaklega í heilbrigðisumdæmi Austurlands. Þá nefnir hærra hlutfall íbúa í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða en í öðrum umdæmum að bæta þurfi bráðaþjónustu á vettvangi vegna alvarlegra veikinda eða slysa.

Reynsla svarenda af bráðaþjónustu

Spurt var hvort svarendur hefðu reynslu af bráðaþjónustu í heimabyggð. Um 87% þeirra höfðu reynslu af bráðaþjónustu í heimabyggð, ýmist sem aðstandendur einhverra sem þurftu á bráðaþjónustu að halda (47%) eða af eigin reynslu (39%). Um 3,8% svarenda starfa við bráðaþjónustu í heimabyggð. Tæplega 31% sagðist enga reynslu hafa af bráðaþjónustu í heimabyggð.

Meðfylgjandi eru niðurstöður könnunarinnar sem veita margvíslegar upplýsingar um viðhorf svarenda til ýmissa mikilvægra þátta bráðaþjónustu, hvort hún sé veitt tímanlega, um gæði hennar og margt fleira.

Framkvæmd könnunarinnar var styrkt af Byggðaáætlun. Hún er hluti af aðgerð A3 sem fjallar um bráðaviðbragð neyðarþjónustu og var unnin í samstarfi við dómsmálaráðuneytið. Könnunin fór fram á netinu. Í úrtaki voru 2.260 manns 18 ára og eldri, utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar, auk 200 manna aukaúrtaks meðal íbúa Vestmannaeyja. Þátttaka var 44,8%.