Halla ætlar að láta lítið fara fyrir sér næstu vikur

Nýja forsetafjölskyldan okkar á sigurstundu, þegar kosningasigur hennar var orðin staðreynd. / Silla Pálsdóttir.

„Kæru vinir og stuðningsfólk. Orð munu seint ná utan um það þakklæti sem býr mér í brjósti fyrir stuðninginn og traustið sem þið hafið sýnt mér. En hér eru myndir sem sýna að enginn gerir neitt merkilegt einn – við gerðum þetta saman! Ég stend á öxlum ykkar og vonast til að lána ykkur mínar og þjóna þannig þegar ég tek við þann 1. ágúst næstkomandi.“

Svo mælir Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, í þakkarkveðju sem hún birti á samfélagsmiðlum í dag.

„Hjartans þakkir fyrir allar heillaóskirnar og hlýju kveðjurnar – allt yljar þetta hjartarótunum og við lesum hverja og eina þó við önnum ekki að svara eins vel og við gjarnan vildum.

Ég ætla að láta minna fara fyrir mér í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum næstu vikurnar og einbeita mér að því að koma fyrra starfi í góðan farveg og vonandi hvílast svo ég geti mætt af fullum krafti til starfa.

Við fjölskyldan þökkum einlæglega fyrir hugrekkið, gleðina og bjartsýnina, hún skiptir okkur sköpum. Höldum ótrauð áfram með klút um háls og kjark í hjarta,“ bætir hún við.