Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, setti fullveldið í samhengi í ræðu á Alþingi í dag, er hann minnti á fullveldisdaginn nú á föstudaginn, 1. desember nk, „því hinu sama og við glutruðum í hendur Noregskonungs 1262 sökum döngunar- og friðleysis en vorum síðan öldum saman að harma og reyna að endurheimta, hnípin þjóð í viðvarandi vanda. Fullveldið endurheimtum við síðan úr hendi Danakonungs fyrir 105 árum. Fullveldið merkir stjórnskipulegt sjálfstæði, sum sé að valdið til að taka ákvarðanir sé hjá innlendum stofnunum og aðilum sem sæki valdið ekkert annað.“
Og svo sagði þingmaðurinn:
„Hvernig skyldi okkur síðan hafa haldist á fullveldinu langþráða? Höfum við, fullvalda þjóðin, gengið til góðs? Þetta hefur á undanförnum áratugum þróast í þá átt að í dag berast okkur árlega um 650 fyrirmæli frá Brussel um nýjar innleiðingar á lögum og reglum í kjölfar innleiðingar EES-samningsins fyrir þremur áratugum.
Í þessum sal gæla svo ýmsir við að stíga skrefið til fulls inn í sjálft Evrópusambandið, sem myndi þýða á þriðja þúsund nýrra innleiðinga á ári hverju, auk umtalsverðra aðildargjalda og nýrra kvaða en jafnframt möguleikanum á mikilli fjölgun hérlendis á Styrkja-Guddum af ýmsum toga, að ekki sé minnst á evrópska gjaldmiðilinn evru sem hér yrði innleiddur með kostum og göllum.
Við finnum fyrir vaxandi kröfum um framlög í evrópska þróunarsjóði, flugsskatta, skipaskatta, Schengen-skatta og sitthvað fleira sem við inngönguna í EES komu aldrei til tals. Gömlu þýlyndisgenin í okkur virðast furðulífseig frá dögum norsku og dönsku kónganna og fyrirstaðan gegn vaxandi frekju Evrópuvaldsins og peningaplokki öllu hefur ekki reynst sérlega haldbær. Við þegjum frekar bara og borgum.
Stígi hins vegar fram innlendir sárafátækir eldri borgarar og óski eftir örlitlum stuðningi jólamánuðinn, nú á geðveikum vaxta- og verðbólgutímum, skortir ekkert á festuna og aðhaldssemina í ríkisfjármálum. Þegar beðið er um 66.000 kall fyrir þá 2.000 einstaklinga sem mynda fátækasta þjóðfélagshópinn í okkar annars vellauðuga samfélagi er svarið kjarnyrt: Nei.
Fögnum 105 ára fullveldisafmæli okkar í vikulokin með rausn og reisn en jafnframt með góðri samvisku gagnvart hinum fátækustu meðal vor, fólkinu sem mest þarf á okkur að halda nú í aðdraganda rándýrra jóla.“