Á morgun verða nokkur tímamót í íslenskum stjórnmálum, þegar Reykvíkingar fá nýjan borgarstjóra: Einar Þorsteinsson oddvita Framsóknarflokksins og fv. fréttamann á Ríkisútvarpinu. Dagurinn í dag er því lokadagur Dags B. Eggertssonar í stóli borgarstjóra, en hann hefur ráðið mestu um það sem gerist í Ráðhúsi Reykjavíkur um langt árabil.
Dagur Bergþóruson Eggertsson hefur nú gegnt embætti borgarstjóra samfellt frá árinu 2014. Hann var áður borgarstjóri í hundrað daga frá október 2007 til janúar 2008 og formaður borgarráðs 2010-2014 þegar Jón Gnarr var borgarstjóri. Hann verður nú að nýju formaður borgarráðs, en hefur lýst því yfir að hann hyggi ekki á endurkjör í borgarstjórn og geti vel hugsað sér þátttöku í landsmálapólitíkinni.
Dagur ætti að eiga auðvelt með samstarf með Framsóknarflokknum, því hann má heita sérfræðingur í sögu eins helsta foringja flokksins, Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra, en Dagur reit ævisögu hans sem kom út í þremur bindum á árunum 1998-2000.
Dagur er menntaður læknir, en lauk einnig meistaraprófi í mannréttindum og alþjóðalögum frá Háskólanum í Lundi.
Hann var upphaflega kjörinn í borgarstjórn sem ópólitískur fulltrúi á Reykjavíkurlistanum (R-listi) þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var borgarstjóri. Hún varð síðar formaður Samfylkingarinnar og Dagur varð varaformaður þess flokks á árunum 2009-2013, þegar Jóhanna Sigurðardóttir var þar formaður og forsætisráðherra.
Borgarstjórn fer með stjórn Reykjavíkurborgar samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Borgarstjórn er skipuð 23 borgarfulltrúum sem eru kjörnir í lýðræðislegum kosningum af íbúum Reykjavíkurborgar.
Borgarstjórinn í Reykjavík er framkvæmdastjóri borgarinnar og er ráðinn af borgarstjórn. Hann er æðsti yfirmaður starfsmanna Reykjavíkurborgar. Borgarstjórinn og borgarráð fara með framkvæmdastjórn borgarinnar og fjármálastjórn.