Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri heldur sókn sinni í skoðanakönnunum áfram þessa dagana og Morgunblaðið birtir í dag nýjustu skoðanakönnun Prósents þar sem hún er efst með tæplega 29% fylgi, þó ekki sé tölfræðilega marktækur munur á henni og Baldri Þórhallssyni prófessor, sem mælist með 25% fylgi.
„Stóru fréttirnar eru hins vegar þær að fylgi Katrínar Jakobsdóttur fv. forsætisráðherra minnkar skarpt milli vikna samkvæmt niðurstöðum Prósents. Hún mælist nú með 18% fylgi, en var með 24% í liðinni viku. Jón Gnarr leikari rekur lestina með 16%,“ segir í frétt Morgunblaðsins. Þess ber að geta, segir blaðið, að vikmörk í könnuninni eru há og fylgissveiflur miklar.
Athygli vekur að blaðið spyr einnig í könnuninni um þá frambjóðendur sem landsmenn telja sigurstranglegasta í komandi kosningum, þann 1. júní nk. Þar hefur Katrín Jakobsdóttir afgerandi forystu, eins og sjá má af grafi Morgunblaðsins hér að neðan.