Sænskar moskító-flugur herjuðu svo á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í ferð til Svíþjóðar í liðinni viku, að hann fékk sýkingu og þurfti að leita læknisaðstoðar. Þess vegna var hann fjarverandi á lokadögum þingsins og þurfti að kalla inn varamann.
Frá þessu greinir Sigmundur Davíð sjálfur í nýjasta þætti hlaðvarpsins Sjónvarpslausir fimmtudagar, sem hann heldur út með Bergþóri Ólasyni, þingflokksformanni Miðflokksins og lýsir þar með myndrænum hætti hvernig hann hlaut mörg hundruð flugnabit og bólgnaði allur upp. Kveðst hann ala þá von í brjósti að moskító-flugur nemi ekki land hér, enda séu þær „viðbjóðsleg kvikindi“.
Í þættinum fara þeir félagar yfir stöðuna í pólitíkinni nú þegar þingið er farið í sumarfrí og meta lífslíkur ríkisstjórnarinnar litlar þegar hausta taki og nýr formaður hefur tekið við Vinstri grænum. Hlýða má á spjall þeirra félaga í spilaranum hér að neðan.