Sterk innkoma

Óhætt er að segja að Björn Brynjúlfur Björnsson hafi átt sterka innkomu undanfarið sem nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Svanhildur Hólm Valsdóttir hætti störfum í vor, sem kunnugt er, og tekur senn við sendiherraembætti í Washington, en eftirmaður hennar hóf störf með krafti og sjónarmið Viðskiptaráðs orðið áberandi í opinberri umræðu, t.d. í menntamálum og áhrifum tolla á matvælaverð.

Erlendis eru samtök á borð við Viðskiptaráð áhrifamiklar hugveitur sem halda stjórnvöldum við efnið og halda tilteknum sjónarmiðum á lofti. Greinilegt er að nýr framkvæmdastjóri ráðsins ætlar að gera sig gildandi í umræðunni og setja fram gagnrýni þegar það á við.

Það er fagnaðarefni og veitir ekki af, enda sést vel á viðbrögðum við málflutningi Viðskiptaráðs í menntamálum að kennaraforystan grípur til gamalkunnra bragða í vörn sinni, sem eru að hjóla í manninn en ekki boltann og afþakka með öllu umræður annarra en þeirra sem hafa einhvers konar kennsluréttindi upp á vasann.

Vandinn er sá að undir þeirri leiðsögn hefur íslenskt skólakerfi villst alvarlega af leið og þolir lítt alþjóðlegan samanburð. Þess vegna á einmitt að kalla til sérfræðinga utan kerfisins til þess að koma með ábendingar og hugmyndir um það sem betur mætti fara.