Taktföst afhelgun íslensks samfélags

Ástæða er til að hvetja alla til að lesa kjarnmikla ádrepu sr. Gunnars Jóhannessonar sóknarprests um kirkjugarðamálið og það hvort krossinn eigi vera sýnilegt tákn í starfsemi kirkjugarðanna:

„Krossinn felur margt í sér, umfram allt djúp sannindi um lífið og tilveruna, og úrslitaatburð í sögu mannsins sem öllu varðar, sem og mikla sögu og samhengi fólks og samfélaga í gegnum árþúsundin. Það er á sama tíma auðvitað margt og misjafnt hvað fólk sér í krossinum. Hann er og hefur alltaf verið heiðingjum heimska, eins og Páll postuli sá og vissi strax í upphafi, ásteytingarsteinn og hneykslunarhella.

Ég er hissa á að lesa sumt sem fram hefur komin um þetta mál innan frá þjóðkirkjunni, þar sem fagnað er þeim breytingartillögum sem um ræðir og þær réttlættar sem augljóst framfaraskref, ekki síst í ljósi kristinnar trúar.

Að kasta krossinum núna í samhengi starfsemi kirkjugarðanna okkar kann að þykja lítilfjörlegt eitt og sér. En höfum það huga, og íhugum það alvarlega, að það er bara einn lítill hluti í miklu stærri mynd sem sýnir taktfasta afhelgun íslensks samfélags. Og hún hefur vaxið mjög undanfarið og hér er nú um að ræða eina birtingarmynd hennar.

Þessi afhelgun, sem er ánægjuefni í hugum margra, eins og sjá má víða í þessari umræðu, leiðir einfaldlega ennfrekar til, og er í raun ekki fólgin í öðru en því, að trúarlegar hugmyndir, stofnanir og túlkanir glati samfélagslegri merkingu sinni, gildi og áhrifum. Og það er ljóst, þótt veraldarhyggja og afhelgun komi fram með ólíkum hætti innan samfélagsins, að hún grefur undan samfélagslegum áhrifum trúar – og í okkar samfélagi merkir það umfram allt kristna trú. Það einkennir því hið afhelgaða og veraldarvædda vestræna samfélag að trú er ekki talin jafn sjálfsagður samfélagslegur þáttur eða áhrifavaldur og áður var – og að sumra mati er trú samfélagslegur skaðvaldur. Þessi fylgir að fleiri láta sig trú litlu sem engu varða og sjá ekki að hún hafi mikilvægu eða nauðsynlegu hlutverki að gegna í nútímasamfélagi, ef nokkru yfirleitt. Þetta hefur vitanlega orðið til þess að þær forsendur sem liggja efahyggju og guðleysi til grundvallar hafa fundið sér æ dýpri bólfestu í formgerð samfélagsins og þar með í vitund fólks.

Fólk trúir að sjálfsögðu því sem það vill trúa. Og það kann vel að vera að afhelgun samfélagsins sé óhjákvæmileg upp að vissu marki. Vaflaust er hún það. En fögnum henni ekki sem kristið fólk eða sem kirkja. Við erum ekki kölluð til þess, heldur til að lifa, leynt og ljóst, trú okkar á Drottinn Jesú Krist og til þess að kalla alla aðra undir merki þessa sannleika – sem birtist í krossinum sem hann dó á og reis upp af.

C.S. Lewis hefur lærdóm að leggja fram í þessu samhengi:

„Þú getur ekki statt og stöðugt „séð í gegnum“ allt. Heila málið við það að sjá í gegnum eitthvað er að sjá eitthvað annað í gegnum það. Það er gott að glugginn er gagnsær vegna þess að gatan eða garðurinn handan hans er það ekki. En ef þú sæir í gegnum garðinn líka? Ef þú sæir í gegnum allt þá væri allt gagnsætt. Og heimur sem er að öllu leyti gagnsær er ósýnilegur heimur. Að sjá í gegnum allt er það sama og sjá ekki neitt.“

Alltof lengi hefur þjóðkirkjan talið sér trú um það að hún vaxi að virðingu og stöðu í íslensku samfélagi með því að fylgja straumnum í einu og öllu. En höfum í huga að einungis dauðir fiskar fylgja straumnum í einu ög öllu. Í því er fólginn bitur sannleikur. Ef við leitumst sífellt við að horfa framhjá eða í gegnum eða í kringum hlutina þá endar einfaldlega á því að við missum sjálf sjónar á því sem mestu varðar og verðum um leið ósýnileg líka í augum annarra þar sem við erum.

Þegar byrjað er að fjarlægja og taka burt krossa er ekki tilefni eða tími til fagnaðar heldur þarf kirkjan og kristið fólk að íhuga hvar við erum og á hvaða leið – og umfram allt að horfa djúpt inn á við og hugsa um stöðu sína og stefnu.“

Þetta eru orð í tíma töluð hjá sr. Gunnari.