Á vef Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið birt svofelld yfirlýsing frá forstjóra fyrirtækisins, Dr. Kára Stefánssyni:
„Vegna misskilnings sem hefur orðið vart í umræðunni eftir viðtal við mig í hlaðvarpinu Skoðanabræðrum þar sem ég tjáði mig um Covid 19, vil ég árétta að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til í faraldrinum hafi verið rökréttar miðað við þær forsendur sem lágu fyrir. Það hefur ekki breyst. Flestar þessara aðgerða standast skoðun í ljósi þess sem við höfum lært síðan.
Ríkisstjórnin bar ábyrgð á sóttvarnaraðgerðum í faraldrinum, hún fór nær algerlega að ráðum sóttvarnaryfirvalda sem sóttu sér ráð víða í samfélaginu, meðal annars til mín og fólksins í Íslenskri erfðagreiningu.
Það er engin spurning að bólusetningar björguðu tugum ef ekki hundruðum milljóna mannslífa. Bóluefnin sem voru notuð eru býsna góð en gætu verið betri og eftir því sem veiran stökkbreyttist varð áhrifamáttur þeirra minni.
Þegar lyf og bóluefni eru gefin er verið að fikta í líffræði mannsins.Öllum lyfjum og öllum bóluefnum fylgir hætta á aukaverkunum. Þau bóluefni sem voru mest notuð voru tvenns konar, RNA bóluefni og eitt annars konar. Það voru ívið meiri aukaverkanir af gamaldags bóluefninu en þeim sem byggðu á RNA.
Miklar umræður hafa skapast um bólgu í hjartavöðva sem aukaverkun af bólusetningu. Það er rétt að bólusetning gegn veirunni þrefaldar hættuna á henni en sýkingin sjálf átjánfaldar hana þannig að bólusetningin veitir sexfalda vörn gegn bólgunni.
Aukaverkanir af bólusetningunni voru sannarlega til staðar en ekki meiri en búast mátti. Þess vegna er aldrei veitt leyfi fyrir þessum efnum fyrr en búið er að sýna fram á að hættan af því að nota þau sé minni en hættan af því að gera það ekki. Það var svo sannarlega gert við bóluefnin í þessum faraldri.
Ég velti upp þeirri spurningu í viðtalinu við Skoðanabræður hvort það hefði verið betra að sleppa yngra fólki við bólusetningu vegna þess að áhættumat hjá þeim gæti hafa verið annað en hjá þeim eldri, en það virtist sleppa betur frá sýkingunni. Ég benti þó á í því sambandi á að til að byrja með var vonast til þess að bólusetning kæmi ekki bara í veg fyrir sjúkdóm heldur líka smit sem fólk gæti borið áfram án þess að veikjast. Bóluefnið reyndist þó ekki koma alveg í veg fyrir smit en dró mikið úr því. Það varð þó einnig að skoða þetta með hliðsjón af hegðunarmynstri ungs fólks sem var líklegra til að umgangast fleiri og bera veiruna hraðar á milli. Það voru því einfaldlega ekki forsendur fyrir hendi til þess að taka ákvörðun um að bólusetja ekki yngra fólkið.
Þótt flestar aðgerðir sem gripið var til standist skoðun í ljósi reynslunnar er það í anda góðra vinnubragða að líta um öxl og velta fyrir sér því sem hefði verið að hægt að gera betur. Það er hinsvegar erfitt að ræða hreinskilnislega um slíkt í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum í andrúmslofti tortryggni og heiftar þar sem sannleikurinn verður stundum algert aukaatriði.
Að lokum vil ég árétta að hvorki ég persónulega né Íslensk erfðagreining höfðum fjárhagslegan ávinning af faraldrinum.“