Sama dag og tekin verður til afgreiðslu á þingi tillaga Miðflokksins um vantraust á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra, er ástæða til að velta fyrir sér mögulegum afdrifum tillögunnar og afleiðingum þess að einstakir þingmenn stjórnarmeirihlutans standi við stóru orðin gagnvart ráðherranum og styðji tillöguna.
Byrjum á aðalatriðinu: Tillagan verður kolfelld. Þingmeirihlutinn er það eina trausta við núverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktsson sem áfram skakklappast endalaust, þótt þrjú hjól eða færri séu enn undir bílnum.
„Það þarf ekkert að hafa neinar áhyggjur, þessi vantrauststillaga verður felld enda er þessi tillaga pólitískt leikrit,“ sagði Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í gær, þar sem hún ítrekaði að hennar þingmenn muni fella vantraustið. Ekki sé ætlunin að láta sameinaða stjórnarandstöðu stilla stjórnarflokkunum upp við vegg.
Lítið vafamál er að þingflokkur VG mun styðja sinn ráðherra. Sama ætlar framsókn að gera, að sögn þingflokksformannsins. Þá er eftir þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og samkvæmt heimildum Viljans hefur Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður flokksins látið þau boð út ganga, sjálfur og gegnum aðra, að fella beri tillöguna. Ríkisstjórnarsamstarfið verði að halda áfram.
Og eins og venjulega munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins „kyngja ælunni“ eins og Brynjar Níelsson lýsti eitt sinn með frægum hætti. Þeir þingmenn sem hæst hafa veinað yfir stjórnarsamstarfinu, fylgi Sjálfstæðisflokksins, uppgangi Miðflokksins og verkleysi ríkisstjórnarinnar, munu mæta á NEI-takkann á þingi í dag og leggja blessun sína yfir embættisfærslur matvælaráðherrans og lýsa trausti á hann.
Langflestir en kannski ekki allir.
Samkvæmt heimildum Viljans voru þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins líklegastir til þess að taka á sig rögg og neita að verja ráðherra vantrausti, sem að þeirri eigin sögn hefur vísvítandi brotið lög, notað tafaleiki og farið á svig við stjórnarskrána.
Það eru þeir Teitur Björn Einarsson úr Norðvesturkjördæmi þar sem hitinn er hvað mestur um hvalveiðarnar, þingflokksformaðurinn fyrrverandi Óli Björn Kárason og Jón Gunnarsson fv. ráðherra og einhver eindregnasti stuðningsmaður hvalveiða í íslenskum stjórnmálum.
Taugaveiklun og skilyrði Vinstri grænna
Teitur Björn fór óvænt í veikindaleyfi vegna brjóskloss í vikunni og verður því fjarri góðu gamni í dag. Óli Björn og Jón Gunnarsson hafa ekkert viljað gefa upp opinberlega um afstöðu sína, en manna á millum hefur verið rætt um að þær gætu staðið með sannfæringu sinni og stutt tillöguna.
Þetta vita Vinstri græn og í gærkvöldi voru ítrekuð þau skilyrði flokksins til samstarfsflokkanna, að fullur stuðningur allra þingmanna stjórnarliðsins sé forsenda fyrir áframhaldandi samstarfi.
Hverju það skilar, kemur í ljós á eftir. Órólega deildin í Sjálfstæðisflokksins er nær að engu orðin og gæti endanlega dáið drottni sínum í atkvæðagreiðslunni um vantraustið. Ef Jón Gunnarsson ver ráðherrann vantrausti, eftir allt það sem hann hefur sagt um Vinstri græn og pólitík þeirra, er hætt við því að lítið mark verði tekið á honum í framhaldinu.
Þetta veit Jón Gunnarsson vel og þetta vita líka Miðflokksmenn. Þess vegna lögðu þeir vantraustið fram. Þetta er gildra sem egnd hefur verið fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, standa Sigmundur Davíð og Bergþór Ólason uppi sem sigurvegarar. Þeir munu taka glaðbeittir við óánægðum kjósendum Sjálfstæðisflokksins næstu daga og vikur og fylgi flokksins mun halda áfram að aukast.
Það eitt er alveg víst.