Afgerandi stjórnmálaskýrandi

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Mynd/HÍ

Athygli hefur vakið skelegg framganga dr. Baldurs Þórhallssonar stjórnmálafræðiprófessors í fréttaflutningi af innrás Rússa í Úkraínu. Baldur virðist hafa lesið stöðuna hárrétt í aðdraganda innrásarinnar og áttað sig á þeim miklu tíðindum sem voru í pípunum, ólíkt ýmsum öðrum.

Baldur er afgerandi stjórnmálaskýrandi og skiljanlegt að fjölmiðlar vilji fá hans sýn á stöðu mála og þróun, ekki síður en Jóns Ólafssonar prófessors, þess mikla sérfræðings okkar í málefnum Rússlands.

Baldur setur fram athyglisvert innlegg á fésbókina, þar sem hann leggur áherslu á okkar eigið frumkvæði í utanríkismálum, sem fullvalda ríki og aðili að Atlantshafsbandalaginu:

„Tökum frumkvæðið: Nokkuð hefur borið á því í umræðunni um varnarmál að einfaldlega sé best að spyrja Bandaríkjastjórn hvort að henni finnist að þörf sé á varnarliði hér á landi. Þessi nálgun er af mínu mati útvistun á stefnumótun í varnarmálum. Við eigum sjálf að meta og taka afstöðu til þess hvernig vörnum okkar er best háttað og ekki láta ráðamenn í Bandaríkjunum og NATO eina um að móta stefnuna. Íslensk stjórnvöld eiga að taka frumkvæðið í viðræðum við bandalagsríki um sameiginlegar varnir.“

Undir þetta skal tekið.