Allt orðið endanlega vitlaust: Hvað gerist nú? (Lifandi þráður)

Með því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur nú tekið á sig rögg og viðurkennt hið augljósa, bæði fyrir sjálfum sér og öðrum, að ríkisstjórnarsamstarfið gæti ekki unnið á mikilvægum úrlausnarefnum og rjúfa beri þing og boða til kosninga vakna ótal spurningar og álitaefni, sem forvitnilegt er að velta upp.

(Pistillinn verður uppfærður og varúð: Hann verður langur…)

Þeir eða þau sem vilja koma efni hér á framfæri eru beðin um að nota netfangið: viljinn(hjá)viljinn.is — ekki verra ef skemmtilegheitin eru með í för.

Framsókn undrandi

Greinilegt er að framsóknarmenn undrast atburði dagsins og mætti formaður flokksins, fjármálaráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson í kvöldfréttir RÚV þar sem hann tók undir með formanni VG, að fundur formanna stjórnarflokkanna þriggja í gær, hefði ekki kallað á tilkynningu um stjórnarslit og kosningar.

Að hans mati hefði verið hægt að ná saman í stórum ágreiningsmálum, hefði verið vilji til þess. Sigurður Ingi sagðist hafa áhyggjur af verðbólgunni í kjölfar þessara atburða.

Tækifæri Miðflokksins

Baldur Hermannsson, sem klauf þjóðina í herðar niður fyrr á tíð með sjónvarpsþáttunum Þjóð í hlekkjum hugarfars, rýnir í möguleika Miðflokksins og mistök þeirra áður fyrr:

„Miðflokkskempurnar læra af ægilegri reynslu síðustu kosninga er þeir glutruðu öllu niður á örskömmum tíma með handvömm á handvömm ofan, klaufalegum uppstillingum og undarlegri kosningabaráttu.

En þeir Bergþór og Sigmundur hafa unnið þrekvirki á þrem árum, hreinsað flokkinn af hneisu hlálegra stórslysa og vaxið jafnt og þétt í áliti sanngjarnra manna.

Vilji Miðflokkskempur ná kjörfylgi samkvæmt könnunum þurfa þeir að velja vandlega á framboðslistana, velja frambærilegt fólk sem endurspeglar þjóðlega stefnu flokksins.

Takist flokknum það gæti hann orðið stærstur flokka á Alþingi því Kristrún á eftir að lenda í verulegum þrengingum við val á sína framboðslista.“

Afleikur Svandísar

Össur Skarphéðinsson fv. utanríkisráðherra, segir að nýr formaður VG beri ábyrgð á því hvernig fór í dag:

„Svandís Svavarsdóttir leiðir flokk sem er í tilvistarhættu, og allsendis óvíst er að nái inn á þing í kosningunum sem senn verður boðað til. Að flokki hennar er sótt úr þremur áttum, frá Samfylkingu sem hefur reytt talsverðan hluta af fylgi VG til sín, Sósíalistum sem munu efalítið ná manni á þing eftir að VG gafst upp á flestum prinsipum sínum, og Flokki fólksins.

Svandís bjó til mjög einfalt plott sem fólst í að slíta ríkisstjórninni á hentugum tíma fyrir VG og keyra svo í kosningar undir því flaggi að VG hefði steypt undan Sjálfstæðisflokknum. Þannig ætlaði hún að krafsa til sín atkvæði af vinstri vængnum í nægum mæli til að bjarga ræflinum sem eftir er af VG. Þetta var í sjálf sér ágætis plan og hefði kanski getað bjargað VG fyrir horn.

Það var hins vegar alger afleikur hjá henni að storka Bjarna með því nánast að núa þessu plani upp í nasir hans og lýsa því yfir ásamt Mumma varaformanni að VG ætlaði auk þess að leggjast þvert gegn þeim málum tveimur sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur ofuráherslu á, innflytjendamálin og orkumál. Við þessar aðstæður átti Bjarni í reynd engan kost annan en slíta ríkisstjórninni strax – einsog ég rökstuddi vel í Grjótkastinu, hlaðvarpi Björns Inga, sl. föstudag.

Yfirlýsingar Svandísar knúðu í reynd Bjarna til að hrista loksins af sér slyðruorðið, taka frumkvæðið – og slíta stjórninni á undan henni. Þetta var grófur afleikur hjá Svandísi. Hún virðist hafa verið slegin algerri skákblindu, því í stöðunni átti Bjarni engan annan kost en rjúfa stjórnarsamstarfið. Svandís hrinti honum út í þá ákvörðun. Hann hefur þá fullkomnu afsökun að yfirlýsingar nýs formanns VG gerðu hana einfaldlega óstjórntæka – og þarmeð hennar flokk.

Svandís leysti Bjarna í reynd niður úr fleiri en einni snöru með afleik sínum. Hún gaf honum gilda ástæðu til að slíta ríkisstjórninni án þess að nokkur geti ásakað hann um skort á úthaldi, eða tækifærisstefnu. Dagar hans sem formanns voru nánast taldir, og allir – líka hann sjálfur – bjuggu sig undir formannsskipti.

Þessi snöggu umskipti gera hins vegar að verkum að hann getur haldið áfram sem formaður – einsog hann langar til – og mun leiða flokkinn gegnum kosningar. Vitaskuld fær Sjálfstæðisflokkurinn meira en þau 12-13 prósent sem kannanir síðustu mánuða hafa sýnt hann hafa. Það mun Bjarni túlka sem varnarsigur – og sitja sem fastast. Svandís hefur því afrekað það að verða björgunarbelti Bjarna Benediktssonar.

Henni má svo einnig þakka þá sögulegu staðreynd að Bjarna hefur nú tekist að slá fyrra Íslandsmet sitt um skammlífi forsætisráðherra. Hvort feilspor Svandísar leiðir svo til þess að hún verði skammlífasti formaður í sögu VG á svo eftir að koma í ljós, en atburðarrásins sem hún hrinti af stað eykur ekki líkur á að VG nái manni á þing.

Ekki græt ég mig í svefn útaf því…“

Rétturinn ekki Bjarna

Gauti B. Eggersson hagfræðiprófessor í Bandaríkjunum (og bróðir Dags fv. borgarstjóra) horfir öðrum augum á atburðarásina og tengir hana fremur innanflokksátökum í Sjálfstæðisflokknum:

„Bjarni hefur ekki vald til að rjúfa þing. Aðrir flokkar geta vel komið sér saman um starfsstjórn. Það er engin ástæða til að láta eins og Bjarni hafi vald, sem er ekki hans. Mér sýnist þetta óðagot Bjarna fyrst og fremst komið af því að hann vilji koma í veg fyrir að einhver ógni stöðu hans sjálfs, sem aldrei hefur staðið veikar. Að boða til kosninga svona skjótt tryggir hans stöðu því þá gefst engum tækifæri til að ógna stöðu hans. Er það sérstakt áhugamál annarra flokka? Eða er kannski betra að horfa uppá borgarastríð í Sjálfstæðisflokknum áður en gengið er að kjörborði!!“

Ja, stórt er spurt!

En Gauti bætir um betur með langri analýsu þar sem hann kafar dýpra í málin og sýnist ekki spenntur fyrir kosningum að forskrift úr Valhöll:

„Í fyrsta sinn í sögu Íslenska lýðveldisins þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn sprengt ríkisstjórn — sem sýnir þá eðlisbreytingu sem orðið hefur á flokknum sem hefur löngum talið kjósendum trú um að hann sé kjölfestu stöðugleika í íslensku stjórnarfari. Atburðarrásin lyktar of óstöðugleika og óðagoti. Mér hefur þótt aðrir flokkar vera heldur fljótir til að taka handritið sem Bjarni hefur skrifað, líkt gefnum hlut, og séu að stilla sér upp í þau hlutverk sem Bjarni hefur valið þeim. Staðreynin er sú að þeir eru fullfærir um að skrifa það handrit sem þeim best hentar. Það kemur út eins og Bjarni sé ´sterki maðurinn´ í íslenskri pólitík, sem öllu ráði, ef þeir standa og sitja eins og hann segir þeim. Það er ekki þeim í hag. Mér sýnist blasa við af hverju Bjarni stendur svona að málum: Hann vill knýja fram kosningar strax, án tafar og án nokkurs konar opins prófskjörs í flokknum sínum eða möguleika neins á að ógna honum í formannstóli Sjálfstæðisflokksins. Það verður að teljast líklegt að það yrði gert ef ekki væri rokið í kosningar strax, því Bjarni hefur aldrei staðið veikar. Flokkurinn mælist lægri en Píratar í skoðanakönnunum. En þótt þetta sé Bjarna í hag, veltir maður því fyrir sér hvort þetta sé í hag annarra flokka? Eins og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, hefur bent á á þá hefur Bjarni ekki það vald að rjúfa þing, eins og kom í ljós þegar Sigmundur Davíð reyndi að búa til svipað leikrit sem hentaði honum vel persónulega til að tryggja eigin stöðu pólitískt en fáum öðrum. Ólafur Ragnar sagði einfaldlega nei. Það er áhugaverð spurning hvort sá forseti sem nú hefur verið valinn hafi pólitíska vigt til þess að neita að dansa eftir flautuleik Bjarna. Vald til að rjúfa Alþingi liggur í höndum forseta, og slíkt er aðeins gert að því gefnu að ekki sé hægt að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Aðrir formenn eru ekki í þeirri úlfakreppu sem Bjarni er heldur sitja öryggir í sínum stólum. Þeim liggur ekkert á. Ef þeir koma sér saman um bráðabyrgaðstjórn, með eða án Sjálfstæðisflokksins, er þeim í lófa lagið að rjúfa þing með þeim hætti sem þeim finnst sér sjálfum best henta og er í bestum takti við lýðræðislegar kosningar og hefðir. Það kann til dæmist að koma þeim ágætlega í hag að horfa uppá borgarastríð í Sjálfstæðisflokknum, þar sem formaðurinn kynni að fá herfilega útreið í prófkjöri, áður en gengið er að kjörborði. Ef ég man rétt, þá er meirihluti á þingi sem þarf hvorki á Sjálfstæðis eða Miðflokki að halda. Þannig að ég myndi mæla með því að allir stjórnmálaleiðtogar andi rólega, spjalli saman í rólegu heitunum, og láti ekki líkt og Bjarni ráði ferðinni. Hann gerir það ekki. Þeir eiga að ræða um þetta sem hugmynd Bjarna, ekki þingrof, því þá eru þeir að gefa honum vald sem hann hefur ekki. Þeir eiga að velta fyrir sér hvort þeir séu mati hans sammála um að rjúfa þing með þessum hætti eða fara aðrar leiðir. Það má mynda starfstjórn eða minnihlutastjórn. Ekki tala líkt og Bjarni stjórni förinni, því það gerir hann ekki sem formaður smáflokks. Þeir eru með öll kortin á sínum höndum hvað þingrof varðar og eiga ekki að láta skammtímahagsmuni formanns Sjálfstæðisflokksins ráða því því hvernig haga skuli Alþingiskosningum á Íslandi. Kannski komast þeir að þeirri niðurstöðu að best sé að fara þá leið að hafa kosningar á svipuðum tíma sem Bjarni leggur til. Kannski ekki. En mér finnst alger óþarfi að vera að gefa honum eitthvað vald sem er ekki í hans höndum. Fólk ætti að anda rólega og velta því fyrir sér hvað er landi og þjóð fyrir bestu og hvernig sé eðlilegt að standa að lýðræðislegum kosningum á Íslandi. Það hefur verið gert margoft áður, við miklu verri og flóknari ástæður, áður en að rokið er í þær í einhverjum panikki. Eins og ég sagði, þetta lyktar of óstöðugleika og óðagoti, sem er fyrst og fremst prívat vandamál Bjarna og hans þröngu pólitísku stöðu innan eigin flokks.“

Ungt framsóknarfólk brjálað og kallar Bjarna heigul

Á vef Ríkisútvarpsins má lesa að óvenju harkalegur tónn er í ályktun ungs framsóknarfólks, sem kalla forsætisráðherrann heigul fyrir að hafa slitið stjórninni:

Nostradamus á Viljanum?

Viljinn skýrði fyrstur miðla frá því sl. fimmtudagskvöld, að þingrof og möguleikinn á nóvemberkosningum væri á borði Bjarna Benediktssonar. Það hefur nú heldur betur gengið eftir og formaður Miðflokksins hendir það á lofti á X-inu:

Samþykkir forsetinn erindi Bjarna?

Halla Tómasdóttir er ný á forsetastól og fær nú stórt verkefni í fangið. Forsætisráðherrann mætir til hennar kl. 9 í fyrramálið og tilkynnir um þingrof. Þó ekki samdægurs, því Bjarni vill helst að það taki gildi nk. fimmtudag. Og að kosið verði þá 30. nóvember nk. Mun forsetinn samþykkja umyrðalaust? Líklegt er að hún vilji ræða við forystumenn annarra flokka til að rýna stöðuna, en að líkindum eru þó flestir þeirrar skoðunar að annar meirihluti verði ekki myndaður svo glatt á þessum tímapunkti og því sé rétt að kjósa.

Ekki er líklegt að marga dreymi um jólakosningar og því er horft til síðustu daga nóvembermánaðar, laugardagsins 30. nóvember.

Hlustaði Bjarni á Össur?

Magnað 90 mínútna spjall Össurar Skarphéðinssonar og Þorsteins Pálssonar hjá ritstjóra Viljans sl. föstudag vakti mikla athygli, enda skylduhlustun fyrir allt áhugafólk um stjórnmál.

Þar gaf Össur Bjarna Benediktssyni nokkur heilræði og hann minnir á þau í ljósi tíðinda dagsins:

Þórdísi Kolbrúnu er létt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifar á fésbókina að henni sé létt eftir yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar:

„Mér er létt að við séum búin að taka ákvörðun um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Það liggur fyrir að það er ekki lengur til staðar nægur vilji og sameiginleg sýn til þess að halda samstarfinu áfram.

Nokkur mál sem oftast hafa verið nefnd til sögunnar og hefur steytt á milli flokkanna, einkum það sem snýr að orkumálum og málefnum hælisleitenda. En í mínum huga eru málin miklu fleiri og djúpstæðari. Enda þótti mér alls ekki sjálfgefið að halda áfram þegar Katrín lét af störfum. Þar kemur margt til.

Við höfum mjög ólíka sýn á einstaklingsfrelsið.

Sjálfstæðisflokkurinn setur það í efsta sæti, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur því þannig er samfélagið best.

Við höfum ólíka sýn á réttarríkið. Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um að leikreglur lýðræðisins þurfi að standa ofar hagsmunum valdhafa eða réttlætistilfinningu í samfélagsumræðunni.

Við höfum ólíka sýn á grundvallarhlutverk og umfang ríkisins, ríkisfjármál og efnahagsstjórn. Við viljum forgangsraða af alvöru, losa um eignir og fækka verkefnum og við viljum að kraftar einkaframtaks séu nýttir til að leysa verkefni og forgangsraða í grundvallarverkefni ríkisvaldsins.

Sjálfstæðisflokkurinn setur frelsið ofar forræðishyggju. Það er flókið að lifa í samfélagi þar sem fólk má gera mistök – en það er meðfæddur réttur að fá að gera þau.

Við höfum ólíka sýn á stöðu Íslands í heiminum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystu um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og samstarf við Bandaríkin til að tryggja varnir okkar, og um EES samninginn til þess að tryggja sem best frelsi til alþjóðlegra viðskipta. Við viljum að Ísland taki stöðu sína í heiminum alvarlega og standi með þeim ríkjum sem deila með okkur grundvallarsýn á heiminn.

Þetta eru aðeins nokkur af þeim grundvallaratriðum sem stjórnarflokkana greinir á um. Það er eðlilegt og heilbrigt í lýðræðissamfélagi að um þessar áherslur sé deilt – og þegar þessi munur er farinn að standa ríkisstjórn fyrir þrifum með þeim hætti sem nú er, þá er eðlilegt að hún láti af störfum.

Nú fara í hönd kosningar þar sem mikilvægt er að hugmyndafræðilegar línur séu skýrar svo þjóðin geti veitt skýrt umboð.

Ég hef átt gott samstarf við félaga mína í ríkisstjórn, vinskap og traust og er stolt af mörgum sigrum og góðum árangri sem þessi stjórn hefur náð. En allt hefur sinn tíma, og sá tími var kominn fyrir þetta ríkisstjórnarsamstarf. Erindinu er lokið.

Við lifum nú á viðsjárverðum tímum. Því miður. Fyrir Ísland mun skipta miklu máli að taka réttar ákvarðanir um hvernig við högum okkar málum heimafyrir, og hvernig við bregðumst við þeim vendingum sem eiga sér stað í heiminum. Allt hefur það áhrif á okkur. Við gætum verið að sigla inn í tíma þar sem það er ekki hægt að stóla á að hlutir reddist – við þurfum að taka ábyrgð okkar alvarlega.

Stjórnmálin líkjast stundum leikriti, en þau eru það sannarlega ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá skyldu að vera afgerandi valkostur fyrir þá Íslendinga sem deila þeirri trú að framtíð Íslands sé best borgið á grundvelli víðsýnnar og þjóðlegrar framfarastefnu sem gæti hagsmuna okkar allra.

Ég vona innilega að okkur beri gæfa til þess að halda út í kosningabaráttu þar sem við tölum um þau mál sem mestu skipta og að við nálgumst lýðræðið að virðingu. Ísland á það skilið,“ segir hún.

x