Dæmisaga um vitleysuna í kerfinu

Á ársfundi Samtaka atvinnulífsins, sem fram fór í Hörpu í gær, fjallaði dr. Eyjólfur Árni Rafnsson verkfræðingur og formaður SA, um það ótrúlega flækjustig og íþyngjandi stjórnsýslu sem hamlar margskonar starfsemi hér á landi.

Í því sambandi rifjaði hann upp að fyrir þrettán árum síðan hafi verið sett lög hér á landi um skeldýrarækt, en Björgólfur Jóhannsson forveri hans hefði varað við afleiðingum þeirra í ræðu á ársfundi SA árið 2012 og sagt:

Kræklingarækt er í grunn afar einföld og felst í því að leggja kaðla í sjó og bíða eftir því að kræklingar festi sig þar á og vaxi upp í tiltekna stærð. En það þarf eftirlit þriggja aðila; Fiskistofu, Landhelgisgæslu og Matvælastofnunar með starfseminni undir stjórn ráðherra. Tilraunaleyfi eru veitt til að hámarki 6 ára og um þau fjalla Fiskistofa, viðkomandi sveitarstjórn, Matvælastofnun, Landhelgisgæslan, Hafrannsóknastofnun, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun, Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Svo þarf að sækja um ræktunarleyfi að loknu tilraunatímabili og þá þurfa sömu aðilar að fjalla um málið að nýju. Að sjálfsögðu er allur kostnaður innheimtur hjá umsækjanda. Hvenær sem er má afturkalla leyfin af ýmsum ástæðum. Þegar þetta er hugleitt er miklu nær að kalla þetta lög um bann við skeldýrarækt. Það er erfitt að sjá fyrir að þessi lög verði til að hvetja til fjárfestingar á þessu sviði.“ 

Eyjólfur Árni sagði þetta lýsandi dæmi um hvernig eftirlitsaðilar og stofnanir tryggi vald sitt. „Ég rifja þetta upp hér vegna þess að nú, 12 árum frá því þessi orð voru sögð, hefur verið birt skýrsla ráðherra um skeldýrarækt þar sem fram kemur að framleiðsla í greininni er nánast að engu orðin og öll leyfi sem í gildi voru við lagasetninguna hafa runnið út án endurnýjunar. Það er þó bót í máli að ráðherra hefur lýst því að staðan sé óviðunandi og að stefnumótun sé hafin fyrir atvinnugreinina. Ég legg til að í þeirri stefnumótun verði gluggað í þessa ræðu, orsökinni fyrir dauða greinarinnar er þar vel lýst. Þessi dæmisaga er því miður lýsandi fyrir margt reglugerða- og lagaverkið hérlendis og áhrifin á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Ég óska þess að við hverfum frá svona íþyngjandi hugsun.“

Undir þetta skal tekið.