Dagskrárstjóri fer á taugum

Andri Snær Magnason rithöfundur.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason er með böggum hildar þessa dagana eftir ársfund Samtaka atvinnulífsins, þar sem birt var ný skoðanakönnun þar sem fram kemur yfirgnæfandi stuðningur þjóðarinnar við það að auka græna orkuframleiðslu hér á landi. Að sama skapi hefur hann pirrast á samfélagsmiðlum yfir útreikningum Viðskiptaráðs á efnahagslegum áhrifum 150 loftslagsaðgerða stjórnvalda. Úttektin leiðir í ljós að tvær af hverjum þremur aðgerðum hafa neikvæð efnahagsleg áhrif. Ráðið hvetur stjórnvöld til að endurskoða núverandi nálgun og meta kostnað loftslagsaðgerða áður en lengra er haldið.

Líklega er ekki að undra að rithöfundurinn bregðist þannig við, því árum saman hefur hann haft nokkurs konar dagskrárvald í umræðunni um orkunýtingu, náttúruvernd og loftslagsmál. Með þeim afleiðingum að Ísland býr núna við orkuskort, fiskimjölsverksmiðjur eru knúnar áfram með olíu og nær algjör kyrrstaða hefur ríkt í byggingu nýrra virkjana á undanförnum árum.

Andri Snær hefur með málflutningi sínum sannfært pólitíkina á vinstri kantinum um að Íslendingar vilji ekki nýta grænar orkulindir sínar; það þurfi bara að losna við stórnotendur og láta aðra hugsa um þau störf sem tapast, að ekki sé minnst á gjaldeyristekjurnar. Könnun SA sýnir að þetta var kolrangt mat hjá stjórnmálamönnunum; þeir örfáu sem vilja ekki virkja neitt meira eru reyndar á pari við fylgi Vinstri grænna nú um stundir, en það beinir frekar augum að ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á að móta stjórnarstefnuna árum saman eftir þröngri vinstri línu meðal almenningi og fyrirtækjum blæðir.

Vill að fyrirtæki yfirgefi Viðskiptaráð

Á samfélagsmiðlum undanfarna daga hefur hinn annars dagfarsprúði rithöfundur farið alveg á taugum yfir því breytta andrúmslofti sem hann skynjar í samfélaginu. Hann hagar sér eins og frekur krakki sem hrifsað hafði til sín öll leikföngin og brjálast þegar skynsemisöflin vilja skipta þeim jafnar.

Þannig hefur hann fullyrt ranglega að Viðskiptaráð sé á móti öllum loftslagsaðferðum, t.d. eflingu birkiskóga og reiðhjólastígum. Og hann spyr: „Er þitt fyrirtæki í Viðskiptaráði? Er ekki kominn tími til að íhuga aðildina, það er ekki samfélagslega ábyrgt að vera í þessu félagi.“

Og á öðrum stað skrifar hann:

„Samtök Atvinnulífsins, Viðskiptaráð, SI, öfl innan Sjálfstæðisflokksins og verktakaiðnaði hafa stillt saman áróðursmaskínu í að telja okkur trú um orkuskort og 100% aukningu á virkjunum fyrir orkuskipti. Allt sem þessir aðilar segja er bull.“

Það var og. Maður umræðunnar, maður orðsins segir að allt sem hinir segja sé bull. Hann er handhafi sannleikans, hann er dagskrárstjórinn og brjálast yfir því að einhverjir vilja breyta því. En með viðbrögðum sínum hefur Andri Snær eiginlega tapað umræðunni áður en hún hófst…