Þeim sem fylgjast vel með því sem gerist að tjaldabaki í íslenskum stjórnmálum, kom ekki mjög á óvart í vikunni er þingforseti tilkynnti að Brynjar Níelsson hefði afsalað sér varaþingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Vitað er að Brynjar hefur verið tregur til að taka sæti sem varaþingmaður að undanförnu, enda þyrfti hann þá að verja stjórnarsamstarf sem hann trúir ekki sjálfur á, og að verkefnum hans við að rýna svokallaða gullhúðun lauk fyrir skemmstu.
Hildur Sverrisdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, gerði mjög virðingarverða tilraun til að tengja afsögn Brynjars því að hann muni á næstunni taka sæti í stjórn nýrrar Mannréttindastofnunar, fyrirbæris sem enn hefur ekki verið sett á laggirnar, enda komu fulltrúar annarra flokka að fjöllum með að byrjað væri að tilnefna stjórnarmenn í hana.
En eins og venjulega þurfti svosem ekkert að bíða lengi eftir því að Brynjar sjálfur segði frá stöðunni eins og hún er á mannamáli í Bítínu á Bylgjunni, hispurslaust og án þess að fegra hlutina.
Taka má frásögn Brynjars saman í fimm punkta, en hún staðfestir um margt það sem haldið hefur verið fram um stöðu mála, meðal annars hér á Viljanum, á undanförnum vikum og mánuðum:
- Í fyrsta lagi truflar hann mjög ákvörðun Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að fresta brottvísun Yazans Tamimi á mánudaginn sl. Það trufli hann að farið sé á svig við reglur og lög í pólitískum tilgangi. Þetta hafi gerst í miklum flýti seint að nóttu og augljóst sé öllum að eitthvað mikið hafi gerst, þegar ráðherra tekur ákvörðun sem hann viðurkennir að sé sér þvert um geð.
- Í öðru lagi segir Brynjar augljóst að ráðherrar Vinstri grænna hafi beitt óeðlilegum þrýstingi. Ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður Kærunefndar útlendingamála hafi legið fyrir mánuðum saman og því sé afar skrítið að það hafi þurft að ræða málið í ríkisstjórn á þessum tímapunkti. Lögformlegt ferli breytist þannig í pólitík og slíkt sé ekki boðlegt í réttarríki.
- Í þriðja lagi sé ljóst að framhaldið geti orðið dýrt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að lifa við beinar og óbeinar hótanir Vinstri grænna um að slíta stjórnarsamstarfinu ef þeir fá ekki sitt fram. Hann gefi ekki mikið fyrir þá vörn að samstarfið hafi ekki verið undir, hann geti eins og aðrir lagt saman tvo og tvo. „Hvort sem menn kalla það beina hótun eða óbeina hótun eða hvað sem menn vilja kalla það. Þetta er óeðlilegur þrýstingur á dómsmálaráðherra að taka ákvörðun sem henni er þvert um geð,“ sagði Brynjar og benti á að enginn taki slíkar ákvarðanir, þvert um eigið geð, án þess að vera beittir miklum þrýstingi. Slíkt sé ekki boðleg framkoma í samvinnu og alls ekki eðlileg stjórnsýsla.
- Í fjórða lagi staðfesti Brynjar það, að margt hafi komið upp í ríkisstjórninni frá því að hún ákvað að halda áfram 2021 sem honum þyki ekki boðlegt. En menn „ætli að lifa í þessu ofbeldissambandi til að ná stærri markmiðum“. En með þessu máli sé of langt gengið.
- Að lokum og í fimmta lagi, undirstrikaði Brynjar að hann hefði verið búinn að taka ákvörðun um að segja af sér varaþingmennsku, en ákvörðunin hafi verið miklu léttari eftir að þetta mál kom upp. „Í mínum huga er þetta alger della,“ sagði hann og bætti við: „Hefði ég verið í stöðu Guðrúnar Hafsteinsdóttur í þessu og lent í þessum þrýstingi. Ég hefði bara sagt af mér á staðnum.“
Ætli þurfi frekari vitnanna við?