Fellur Guðrún á prófinu?

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

Dómsmálaráðherrann Guðrún Hafsteinsdóttir stendur nú frammi fyrir stóru pólitísku prófi þar sem hún þarf að taka afstöðu til ákvörðunar ríkissaksóknara um að áminna Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara fyrir óvarleg ummæli á samfélagsmiðlum.

Gera má því skóna, að Helgi Magnús hafi meginþorra almennings á sínu bandi, enda erfitt að setja sig í spor þess sem búið hefur við umsátursástand á heimili sínu um árabil og hótanir sem opinber embættismaður. Stjórnkerfið ætti fremur að slá skjaldborg um slíkan embættismenn, en flæma hann úr starfi.

Vitaskuld má eflaust færa rök fyrir því að Helgi Magnús hefði mátt færa hægar í sakirnar í ummælum um hitamál sem embættismaður og sjálfur viðurkennir hann það í einlægri færslu í dag, þar sem hann segir að líklega hegði mátt skóla sig betur í mannlegum samskiptum.

„Er klárlega mannlegur. Kannski um of – eða hvað? Ég hef látið orð út úr mér sem hefðu átt að vera ósögð. En gerðum hlutum verður ekki breytt. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ekkert sem ég hef sagt sem kastar rýrð á störf mín sem vararíkissaksóknari.

Ég stend fastur á því að það sé mannlegt að ljúga sér til bjargar þegar neyðin er mikil. Ég stend líka fastur á því að í dómsmálum eigi báðar raddir að fá að heyrast og að opinberir starfsmenn séu ekki án alls tjáningarfrelsis. Enn fastar stend ég á því að við þurfum að standa vörð um íslenskt samfélag og gildi þess. Hefði ég mátt orða hlutina öðruvísi? Já mögulega.

Glaður skal ég áminna mig sjálfan en tilefni er ekki til þess að slík áminning komi frá yfirmanni mínum eða ráðherra. Það er lífsins gangur að viðurkenna lestina sína, vinna í þeim og halda áfram. Meira getur enginn einstaklingur gert. Tek mitt á mig,“ segir hann ennfremur.

Stóra spurningin er: Stendur dómsmálaráðherra með rétttrúnaðinum og áminnir vararíkissaksóknarann eða stendur hún í lappirnar?

Svarið kemur í ljós á næstu dögum, en metsölurithöfundurinn Einar Kárason hittir naglann á höfuðuð á samfélagsmiðlum, er hann segir:

„Þvílík andskotans þvæla. Þessi maður þarf að sitja árum saman undir morðhótunum í sinn garð og fjölskyldu sinnar, frá dæmdum ofbeldismanni sem alltaf gekk laus þótt ljóst sé að hann er til alls vís. Fyrir það að hann tali um þetta hreint út á að víkja honum úr starfi. Er samfélagið að verða að einu fávitahæli?“