Fjölga þarf lóðum og skipuleggja ný svæði

Ástæða er til að hrósa þingmanninum Ágústi Bjarna Garðarssyni, Framsóknarflokki, sem hélt tvö hundruð manna fund um húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu í Bæjabíói í gær. Yfirskrift fundarins var umræður um húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu: tækifæri og áskoranir á húsnæðismarkaði og áhrif hans á íslenskt efnahagslíf til lengri og skemmri tíma.

Frummælendur voru þau Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka þróunarfélags og Lilja S. Kró, hagfræðingur hjá Arion banka. Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra og Svanur Karl Grjetarsson, eigandi MótX byggingarfélags bættust svo við í pallborði.

Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að byggja meira af íbúðum fyrir fólk, fjölga lóðum, lækka vexti og taka svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til endurskoðunar. Það þyrfti þó að haldast í hendur við bættar samgöngur á svæðinu að mati forseta ASÍ.

„Ég er ótrúlega ánægður með fundinn og mætingin, yfir tvöhundruð manns sýnir mér það sé vilji til staðar í samfélaginu til að snúa við þeirri stöðu sem við virðumst vera að stefna í. Hér kom það vel fram hjá öllum þeim sem fram komu að það þurfi að byggja meira, það þurfi að fjölga lóðum og taka svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til endurskoðunar einmitt með það að markmiði að fjölga lóðum á nýjum svæðum.“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar að loknum fundi og bætti við. 

„Þetta hef ég sjálfur sagt lengi en ekki alltaf fengið hljómgrunn. Í ljósi þeirrar samstöðu sem ég fann hér í dag, þá held ég að þessi fundur hafi skilað okkur fram veginn hvað þetta varðar. Nú þarf samstillt átak allra þeirra sem koma að þessum málum áfram svo þetta geti raungerst og við förum að sjá meiri uppbyggingu en verið hefur. Ég læt ekki mitt eftir liggja í því.“ 

Ágúst Bjarni.