Gnarr gæti fært Viðreisn fylgi frá Samfylkingu

Það eru spennandi tímar í íslenskum stjórnmálum og flokkarnir augljóslega komnir í kosningagír; aðeins er beðið eftir því að Svandís Svavarsdóttir tilkynni forsætisráðherranum hvenær Vinstri grænum hentar best að kjósa.

Tíðindi urðu í dag þegar Jón Gnarr, fv. borgarstjóri og forsetaframbjóðandi, tilkynnti að hann væri genginn í Viðreisn. Sagt er að hann gangi með þingmanninn í maganum og verður það að teljast liðsstyrkur fyrir Viðreisn fyrir komandi kosningabaráttu, þar sem fylgið virðist ennþá á mikilli hreyfingu.

Jón Gnarr á sér auðvitað forsögu í Besta flokknum sem frægur varð í borgarstjórnarkosningum sem settu stjórnmálin alveg á hliðina, en sá flokkur rann svo inn í Bjarta framtíð og heyra nú báðir flokkar sögunni til.

Framboð Jóns Gnarr gæti styrkt Viðreisn á kostnað Samfylkingarinnar og sérstaklega verður fróðlegt að sjá, hvort þeir eiga eftir að takast á í kosningabaráttunni, hann og Dagur B. Eggertsson annar fv. borgarstjóri, en þeir voru nánir samverkamenn í borginni á sínum tíma.