Óvæntu tíðindin úr kappræðum Kamala Harris og Donalds Trump hjá ABC-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum í nótt var merkilega góð frammistaða varaforsetans gegn hinum þaulreynda fyrrverandi forseta.
Fyrirfram höfðu stuðningsmenn Trumps gefið í skyn að Harris væri algjörlega óreynd í kappræðum og það myndi koma í ljós; hún næði varla saman heilum setningum án þess að hafa handrit eða skjá fyrir framan sig og veitti þess vegna helst engin viðtöl. Reyndin varð allt önnur; allt frá því Kamala gekk sjálfsörugg inn í salinn og sótti sér handtak hjá mótframbjóðandanum.
Margir hafa hingað til reynt að klekkja á Trump, bæði innan hans eigin flokks og úr röðum andstæðinganna í Demókrataflokknum, en komið illa út úr þeim rimmum, ekki síst þar sem hann svífst jafnan einskis og lætur allt flakka. Hann reyndi sannarlega að höggva áfram í þann knérunn í nótt, en virkaði argur og þreyttur og gekk í hverja gildruna sem varaforsetinn lagði fyrir hann á fætur annarri.
Þetta var í reynd stórmerkilegt, eins og Kamala væri reynslumeiri frambjóðandinn. Trump virkaði allt í einu fullgamall í þetta embætti enda andstæðingurinn ekki lengur Joe Biden að velta fyrir sér hvaða dagur væri eiginlega og hvar hann væri yfirleitt staddur í tilverunni.
Varaforsetinn náði þannig augljósum hælkrók á Trump, nokkuð sem fæstum hefur tekist maður-á-mann, en hverju það breytir um heildarmyndina, ef nokkru, á eftir að koma í ljós. Enn er langur tími til kosninga, heilir tveir mánuðir, og margt eftir að gerast. En kappræðurnar verða líklega ekki fleiri millum þeirra tveggja og þess vegna var þetta söguleg stund.