Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, er með orðheppnari stjórnmálamönnum og dregur hina ólánsömu ríkisstjórn reglulega sundur og saman í háði. Hún setti þessa analýsu saman eftir kynningu á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2025, sem kynnt var í morgun undir yfirskriftinni: Þetta er allt að koma.
„Við eigum það til að fara út í einhvers konar líkingamál þegar ríkisstjórnin er rædd.
Það er þetta sígilda: Foreldrarnir sem rífast úti á svölum þannig að allt hverfið heyrir. Ástlausa hjónabandið.
Þetta eru auðvitað algjörar klisjur en eiga oft vel við um þessa sundruðu ríkisstjórn.
Fjármálaráðherra Framsóknarflokksins kynnti fjárlög í morgun.
Uppskriftin er svipuð og hjá fyrirrennurum hans.
Skilaboðin eru þau að allt sé þetta að koma.
Hvernig er uppskriftin?
Jafnmargar hitaeiningar, engin hreyfing, en samt á mannskapurinn að léttast!
Við vitum öll að það gengur ekki upp. Eins vitum við að eitthvert átak er ekki vænlegt til árangurs til lengri tíma, þó það væri skárra í nákvæmlega þeirri stöðu sem við erum í núna.
Við vitum að það eina sem virkar er lífstílsbreyting.
Það þarf ekki sérfræðing til að segja okkur það.
Fjárlaganefnd fékk sem sagt kynningu á fjárlagafrumvarpi næsta árs núna fyrr í morgun.
Stærsta verkefnið er auðvitað að ná niður vöxtum og verðbólgu sem bíta heimili og fyrirtæki landsins fast.
En planið um það hvernig á að ná niður verðbólgu og ná niður sturluðum vöxtum er við fyrstu sýn einfaldlega ekki í plagginu.
Skilaboðin eru bara þau að þetta sé allt að koma.“