„Hvar er virðingin fyrir verkefninu?“ spyr einn öflugasti þingmaður okkar í dag, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir í Viðreisn, á samfélagsmiðlum, þar sem hún beinir sjónum sínum að verkleysi ríkisstjórnarinnar, vandræðum stjórnarmeirihlutans á Alþingi og átökum millum stjórnarflokkanna, sem hætt eru að valda sérstökum tíðindum.
„Enginn hefur áhuga á rifrildi ríkisstjórnarinnar sem ómar um allt land sem aldrei fyrr.
Það er offramboð af greinum og facebook-statusum þar sem stjórnarliðar kvarta undan samstarfinu.
Mér hefur stundum fundist þessi ríkisstjórn vera eins og óhamingjusöm hjón sem rífast úti á svölum og allt hverfið engist við að hlusta á þau.
Það hefur mátt brosa að þessu og það hef ég svo sannarlega gert. Játa það algjörlega á mig.
Og þetta er fínasta fóður fyrir þá sem sálgreina þetta vonlausa hjónaband og reyna að svara hvor makinn hafi verið frekari í sambandinu:
hvort Katrín Jakobsdóttir hafi í raun leitt hægristjórn eða hvort Bjarni Ben sé núna forsætisáðherrra vinstri stjórnar.
Stærsti vandinn er samt ekki hvor merkimiðinn er réttari heldur að þessi stjórn ber enga virðingu fyrir verkefninu og er haldin algjöru verkstoli.
Á síðustu dögum þings blasir við að ríkisstjórnin getur ekki samið um hvaða málum á að ljúka.
Það hefur ekki lengur með hægri og vinstri að gera heldur eitthvert Íslandsmet í væli um hvað samstarfið sé ömurlegt.
Hægri flokkurinn röflar í Mogganum og vinstri flokkurinn vælir á facebook.
En vandamálið er að þingið er allt á hold. Engin lög eru lengur afgreidd.
Á meðan er verðbólga há, vextir á lánum eru sturlaðir, biðlistar eru vörumerki heilbrigðiskerfisins og stórir hópar barna ljúka grunnskóla án þess að geta lesið almennilega.
Það er eins og það gleymist að verkefnið var ekki að vinna rifrildið við ríkisstjórnarborðið heldur að vinna fyrir fólkið í landinu.
Að leiða með verkum sínum – en ekki að drepa okkur öll með þessum leiðindum.
Hvar er virðingin fyrir verkefninu?“
Hér er hægt að taka undir hvert orð. Þetta er orðið svo vandræðalegt fyrir alla hlutaðeigandi, að það hálfa væri nóg.