Pólitískt stöðumat útgerðarinnar

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) efndu til áhugaverðs fundar í morgun á Hilton Reykjavík Nordica þar sem veiðigjald í sjávarútvegi var til umræðu. Yfirskrift fundarins var Veiðigjald – skattur í nútíð, skerðing í framtíð.

Ekki síst var áhugavert að skoða nafnalistann þegar kom að pólitíska panelnum á fundinum. Þar voru Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í pallborði og ræddu veiðigjald og sjávarútveginn almennt.

Þarna var ekki matvælaráðherrann Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, né nokkur annar frá VG. Og þarna var heldur enginn úr framsókn, Viðreisn, Pírötum eða Flokki fólksins.

Leiða má líkum að því að pólitísk greining þeirra hjá SFS sé sú að mestu skipti að fá sjónarmið þessara þriggja flokka þegar kemur að stefnumótun til framtíðar. Allir vita að núverandi ríkisstjórn er lifandi dauð, en það er samsetning hinnar næstu sem mestu máli skiptir.

Á fundinum í morgun kynntu Ragnar Árnason, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og Birgir Þór Runólfsson, deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, meðal annars nýútkomna skýrslu; Veiðigjald, landsframleiðsla og tekjur hins opinbera: Hagræn greining.