Eftir síðustu borgarstjórnarkosningar var Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknar, stillt upp við vegg með því að aðrir flokkar í borgarstjórn teldu Sjálfstæðisflokkinn ekki stjórntækan. Þess vegna voru valkostir Einars til myndunar nýs meirihluta færri en hann hafði fyrirfram talið sjálfur og niðurstaðan varð feigðarför fyrir leiðtogann sem hafði lofað breytingum; hann endaði á að ganga til liðs við fallinn meirihluta –– sama og Björt framtíð og síðan Viðreisn höfðu gert í kosningum þar á undan.
En hvers vegna var þetta sagt um borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins og hvers vegna hefur honum enn einn ganginn að komast í fréttir vegna innbyrðis ósamstöðu sem birtist t.d. í að hafa þríklofnað í afgreiðslu borgarstjórnar á Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins?
Þeir sem eitthvað þekkja til í borgarpólitíkinni vita, að málið snýst alls ekki um oddvitann Hildi Björnsdóttur. Og ekki heldur oddvitana sem sóttir hafa verið hér á árum áður, hvort sem þeir eru Halldór Halldórsson, Eyþór Arnalds eða aðrir. Málið snýst um að til hefur orðið umhverfi smákónga og -drottninga innan flokksins, sem aldrei hefur verið tekið á en fremur leyft að grassera með fyrrnefndum árangri.
Þessi furðulega staða birtist svo auðvitað prýðilega í stóra sætismálinu sem Ólöf Skaftadóttir upplýsti um í hlaðvarpinu Komið gott í fyrri viku, að Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi hafi stundað það ítrekað að fjarlægja merkingar af sæti oddvita flokksins, setjast þar sjálf og láta oddvitann setjast einhvers staðar fyrir aftan, af því að viðkomandi var kurteis og vissi ekki betur.
Hafa má gaman að slíkum sögum upp að vissu marki, en hætt er við að brosið stirðni þegar fólk áttar sig á þeim eineltiskúltúr sem þetta litla dæmi afhjúpar. Og algjöru virðingarleysi við lýðræðislegar niðurstöður og vilja flokksmanna og kjósenda.
Í fyrsta lagi er ekkert annað fyrir Mörtu Guðjónsdóttur að bjóða sig fram til oddvita fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, ef henni finnst í reynd að hún sé besta manneskjan í það og hafi til þess stuðning. En meðan hún er alltaf neðri sætum á lista borgarfulltrúa en vill sjálf leiðrétta það eftir á með margskonar klækjabrögðum, þarf flokksapparatið sem heitir Valhöll að tryggja borgarstjórnarflokki sínum vinnufrið en leyfa ekki undirróðursstarfsemi að eyðileggja alla möguleika flokksins á endurreisn.
Það er nefnilega pólitískt afrek að margar kosningar í röð hafi Sjálfstæðisflokkurinn ekki náð vopnum sínum. Þegar andstæðingurinn er ævintýralega óvinsæll meirihluti. En meðan Valhöll hefst ekkert að, mun ekkert breytast, alveg sama þótt hafin verði leit að nýjum oddvita…