Síðasti maður úr Valhöll slökkvi ljósin

Skoðanakönnun Maskínu sem birt er í dag sýnir auðvitað rosalega stöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þótt hún þurfi kannski ekki að koma sérstaklega á óvart. Forysta flokksins hefur flotið sofandi að feigðarósi um langt skeið og virt öll varnaðarorð að vettugi. Fyrir vikið hafa fjölmargir kjósendur yfirgefið Valhöll og virðist ekkert lát á þeim flótta.

Í þingflokki Sjálfstæðisflokksins kom fram mikil og bein andstaða við áframhaldandi samstarf stjórnarflokkanna þriggja síðla vetrar þegar Katrín Jakobsdóttir sagði af sér og fór í forsetaframboð. Bjarni Benediktsson gerði ekkert með þá óánægju og keyrði í gegn að hann yrði sjálfur forsætisráðherra. Og andlit einhverrar óvinsælustu ríkisstjórnar seinni tíma á Íslandi.

Fyrir vikið heldur Sjálfstæðisflokkurinn áfram að dala. Fellur um þrjú heil prósentustig frá könnun síðasta mánaðar. Það er að rætast sem stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sögðu fyrir síðasta landsfund flokksins, að ef ekkert yrði að gert færi fylgi flokksins niður í 15%.

Valdakerfinu hvarvetna hafnað

Harðir stuðningsmenn Bjarna Benediktssonar eru með böggum hildar þessa dagana yfir þeirri stöðu sem teiknast hefur upp. Hvarvetna í Evrópu er valdakerfið í bullandi vörn og kjósendur gefa því fingurinn með atkvæðum sínum. Nýlegar forsetakosningar hér á landi og staðan í Bretlandi og Frakklandi, segja þar allt sem segja þarf. Skoðanakannanir hafa um langt skeið sýnt að íslenskir kjósendur hafa fyrir löngu gefist upp á þessari ríkisstjórn og þótt forystumenn hennar streitist á móti og neiti að horfast í augu við staðreyndir, vita allir hvernig hinn sorglegi og óhjákvæmilega endir verður.

Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi forsætisráðherra lét andstöðu við ríkisstjórn sína lönd og leið og lagði allt kapp á að klára kjörtímabilið. Kjósendur þökkuðu fyrir það með því að Samfylkingin þurrkaðist nánast út í næstu kosningum, hvarf meðal annars á Suðvesturhorninu.

Sjálfstæðisflokkurinn flýtur þannig sofandi að feigðarósi og forysta hans gerir ekkert með varnaðarorð. Áfram er sjálfstæðisfólki sagt að mikilvægast sé að ríkisstjórnin starfi áfram, hennar verkefni séu svo mikilvæg og þjóðin þurfi á henni að halda. Það er eins og markmiðið sé að fara undir fylgi Miðflokksins í könnunum.

Meðan sú er staðan, er líklega skynsamlegt að brýna fyrir síðasta manninum úr Valhöll, að muna eftir að slökkva ljósin.