Spurði glottandi hvort ráðherrar Alþýðuflokksins hygðust ekki sitja fram yfir kosningar

Ólafur Jóhannesson lagaprófessor og forsætisráðherra.

Forseti Íslands hefur fallist á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra fyrir ráðuneyti sitt og fór fram á að ríkisstjórnin starfaði áfram sem starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Forsætisráðherra staðfesti að hann myndi verða við því og leiða starfsstjórnina, en Svandís Svavarsdóttir formaður VG hefur tilkynnt að hvorki hún né aðrir ráðherrar flokksins muni taka þátt í starfsstjórninni. Af þvi tilefni telur Viljinn rétt að sækja í gnægtabúr sagnfræðinnar, en svo skemmtilega vill til að dr. Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði og fv. forseti Íslands, skrifaði bókina Völdunarhús valdsins, um það þegar ráðherrar Alþýðuflokksins ætluðu að hætta árið 1979 og vera ekki í starfsstjórn en Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins og einn helsti lögspekingur þjóðarinnar, útskýrði íslenska stjórnskipun fyrir þeim…

Daginn eftir [5. okt. 1979] létu alþýðuflokksmenn til skarar skríða. Meirihluti þingflokksins ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokk og Alþýðubandalag.

Síðla dags hinn 5. október 1979 tilkynnti Benedikt Gröndal forseta Íslands ákvörðun Alþýðuflokksins.

Þriðjudaginn 9. október var komið að því að Benedikt Gröndal tilkynnti ákvörðun flokks síns á ríkisstjórnarfundi. Lagði hann þá fram beiðni Alþýðuflokksins um lausn frá ráðherraembættum, auk kröfu um þingrof og kosningar. Við myndun stjórnarinnar höfðu leiðtogar flokkanna þriggja hins vegar gert munnlegt samkomulag um það að þing yrði ekki rofið nema með vilja þeirra allra.

Forsætisráðherra mislíkaði auðvitað að stjórn hans væri að hrökklast frá völdum og hafði engan áhuga á að létta þeim alþýðuflokksmönnum verkið. „Andrúmsloftið á þessum síðasta ríkisstjórnarfundi var rafmagnað,” sagði Steingrímur Hermannsson í endurminningum sínum. Ólafur Jóhannesson lét andúð sína fyrst í ljós með því að taka málaleitan Alþýðuflokksins ekki fyrir fyrr en búið var að ræða erindi frá ritara danskra jafnaðarmanna, Bandalagi kvenna í Reykjavík og Bandalagi íslenskra leigubílstjóra!

Ólafur kom Benedikt Gröndal síðan í bobba með því að spyrja glottandi hvort ráðherrar Alþýðuflokksins hygðust ekki sitja fram yfir kosningar ef látið yrði að kröfu þeirra um þingrof, enda væri annað óheyrt í lýðveldissögunni. Við þessu átti Benedikt ekki svar þar og þá. „Ólafur glotti enn gleiðar,” rifjaði Steingrímur Hermannsson upp, „en sagði svo alvarlegur í bragði og með nokkrum þunga að hann segðist þá skilja þetta svo að hann yrði ekki fyrir ámæli þótt hann léti dragast að afgreiða lausnarbeiðni ráðherranna á meðan niðurstöðu væri leitað um þingrof”.

Að ríkisstjórnarfundi loknum athuguðu forystumenn í Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi lauslega í samtölum við ýmsa alþýðuflokksmenn hvort unnt væri að taka fyrri ákvarðanir til baka og halda stjórnarsamstarfinu áfram.

Björn Bjarnason, einn nánasti ráðgjafi Geirs, benti í þessu sambandi á að ráðherrum hlyti að vera skylt að sitja uns ný stjórn yrði til: „Það felst í embættisskyldum ráðherra að þeir hlaupi ekki þannig frá að þeir skilji landið eftir stjórnlaust.” Formaður Sjálfstæðisflokksins bauð einnig, eins og sagði í ítarlegri fréttaskýringu Morgunblaðsins, að þegar þing kæmi saman yrði óbreytt skipan í æðstu embætti þess, „enda myndu menn einangra ágreininginn varðandi þingrof og kosningar með þeim hætti að vilji meirihluta Alþingis réði og forseti og ríkisstjórn framfylgdu honum”. Þetta þótti stórmannleg ákvörðun. „Mér þykir þú sýna mér traust,” sagði Ólafur Jóhannesson við Geir Hallgrímsson. En vitaskuld réð það líka afstöðu Geirs að Sjálfstæðisflokkurinn myndi standa vel að vígi í kosningabaráttunni ef hann yrði einn í stjórnarandstöðu og þyrfti ekki að binda trúss sitt við Alþýðuflokkinn að nokkru leyti.

12. október 

Fyrir hádegi var ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem Ólafur Jóhannesson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Kristján Eldjárn beindi því til ríkisstjórnarinnar að hún sæti áfram sem starfstjórn uns ný stjórn yrði mynduð. Allt var þetta samkvæmt reglum og hefð, og „allir ráðherrar urðu við þeim tilmælum með mikilli ánægju”, eins og Ólafur Jóhannesson sagði á þingi síðar um daginn.

Þótt engar séu fyrir því heimildir er ekki óhugsandi að hann hafi þá brosað í kampinn, minnugur þess að nokkrum dögum fyrr höfðu alþýðuflokksmenn í óðagoti sínu ætlað að hverfa án tafar úr stjórninni. Ólafur benti einnig á að þess væru „geysimörg dæmi” að starfsstjórnir sætu við völd svo mánuðum skipti (hann hafði kannski helst í huga nýsköpunarstjórnina og „Stefaníu” fyrstu árin eftir lýðveldisstofnun auk ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar sem sat í rúma tvo mánuði eftir að hafa beðist lausnar). Forsætisráðherra sá því fyrir sér að stjórn hans gæti hæglega setið óbreytt um sinn.

Á ríkisráðsfundinum drap Ólafur einnig á það, sem framsóknar- og alþýðubandalagsmenn höfðu verið að kanna síðustu daga, að ekki mætti útiloka að sættir næðust og stjórnin yrði endurreist.