Staðan í ferðaþjónustu: Það sem pólitíkin þorir ekki að segja (upphátt)

Blikur eru á lofti í ferðaþjónustunni og forystumenn í greininni kalla eftir samhentu markaðsátaki og aðgerðum til að koma landinu aftur í tísku. Ítrekuð eldgos á Reykjanesi með tilheyrandi óvissu og ferleg dýrtíð hér á landi fer illa í ferðamenn sem dvelja nú skemur hér en áður, ferðast frekar um vinsælustu áfangastaði landsins fremur en aðra landshluta og eyðir almennt minnu, ef marka má stöðumat reyndra gestgjafa í íslenskri ferðaþjónustu nú um stundir.

Hótel og aðrir gististaðir finna mjög fyrir afbókunum með skömmum fyrirvara og víða er nær ekkert að gera í útleigu skammtímaíbúða gegnum AirBnB og Booking. Það er eins og einhvers konar snöggkólnun hafi átt sér stað.

Það þýðir auðvitað ekki að ferðamenn séu hættir að sækja landið heim. Árið í fyrra var næstbesta ár sögunnar í ferðaþjónustu með 2,2 milljónir ferðamanna, aðeins 2018 sóttu fleiri landið heim (2,3 milljónir). Tölur fjármála- og efnahagsráðuneytisins sýna aukinheldur að árið 2024 byrji í reynd vel; um 30 þúsund fleiri hafi komið til landsins á fyrstu fimm mánuðunum en á sama tíma í fyrra og það sé fjölgun upp á 4%. Fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum hafi vegið upp á móti lítilsháttar samdrætti í fjölda ferðamanna frá Evrópu. Þá heldur Asíumarkaður áfram að vaxa, en hann hefur verið lengi að ná sér á strik eftir heimsfaraldurinn.

Er minna eytt eða gögnin gölluð?

Fjármálaráðuneytið er í tölum sínum ekki tilbúið að kokgleypa þau skilaboð ferðaþjónustunnar að ferðamenn eyði nú minna en áður á ferðalögum sínum um landið. „Þrátt fyrir fjölgun erlendra ferðamanna virðist dvalarlengd hafa styst ef marka má gögn um fjölda gistinátta á fyrstu fjórum mánuðum ársins (-6,5%) og eyðsla ferðamanna dregist saman (-7%) á sama tímabili. Þá má líklega rekja samdrátt í veltu að einhverju leyti til galla í gögnum um kortaveltu erlendra korta hér á landi þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa í auknum mæli nýtt sér erlenda færsluhirðingu en slík kortavelta sést ekki í opinberum kortaveltugögnum. Þannig er líklegt að kortavelta erlendra ferðamanna sé vanmetin í opinberum hagtölum,“ segir á vef ráðuneytisins.

Þar er einnig bent á nýlega greiningu á bókunarstöðu ferðaþjónustunnar sem byggist á úrtaki hótela á höfuðborgarsvæðinu, sem sýnir að þrátt fyrir lítillega fækkun bókana í júní þá er bókunarstaðan betri frá og með ágúst og inn á mitt næsta ár m.v. sama tíma í fyrra. „Þótt greinilega sé að hægja á vexti umsvifa í ferðaþjónustu, líkt og í hagkerfinu í heild, virðist orðum aukið að óveðurský séu yfir greininni og að Ísland sé dottið úr tísku meðal ferðamanna,“ er niðurstaða ráðuneytisins.

Spyrja má: Hvers vegna er fjármálaráðuneytið sérstaklega að bregðast þannig við áhyggjuröddum Samtaka ferðaþjónustunnar og aðila þar innanborðs? Jú, staðan í pólitíkinni er þannig nú um stundir (sem ráðherrar vilja síður ræða opinskátt og opinberlega) að enn er stefnt að aukinni skattheimtu á ferðaþjónustuna og að hugmyndin er að ferðaþjónustan fari með beinum hætti að skila meiri tekjum í ríkiskassann.

Allt of hraður vöxtur

Að sama skapi er sú skoðun ríkjandi hjá íslenskum stjórnvöldum, að vöxtur ferðaþjónustunnar undanfarin ár, eftir Covid, hafi verið allt of mikill og of hraður, og margvísleg hliðaráhrif þess hafi orðið til þess að kynda verðbólgubálið. Flytja hafi þurft inn erlent starfsfólk í stórum stíl, leiguhúsnæði standi ekki almenningi til boða meðan það sé í skammtímaleigu til ferðamanna og leiði því hækkanir á húsnæðismarkaði, þrátt fyrir hátt vaxtastig.

Það er einfaldlega í samræmi við markmið Seðlabankans og stjórnvalda, að hægja á vexti efnahagsumsvifa, bæði í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum, til þess að ná tökum á verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta hér á landi.

Þess vegna er tímabundin kæling ferðaþjónustunnar ekki stærsta áhyggjuefni ríkisstjórnar, þótt þau kinki skilningsrík kolli þegar forystumenn í ferðageiranum bera sig aumlega. Þetta er hins vegar mjög misvel til vinsælda fallið að ræða opinberlega, en er engu að síður reyndin.