Taka pönkararnir Viðreisn yfir?

Það er loks einhver gangur kringum Viðreisn eftir býsna langa tilvistarkreppu. Jón Gnarr er óvænt (eða ekki) genginn til liðs við flokkinn; ætlar sér oddvitasætið í Reykjavík og hefur hug á stól menntamálaráðherra, að eigin sögn.

Fyrir eru oddvitar flokksins í Reykjavík, þær Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir sem báðar hafa látið til sín taka á kjörtímabilinu. Þorbjörg Sigríður er augljóslega einn af framtíðarforingjum borgaralegu aflanna hér á landi, áberandi á þingi og í fjölmiðlum.

Innan Viðreisnar eru vitaskuld margir fyrrverandi sjálfstæðismenn sem fóru úr flokknum vegna Evrópumálanna. Borgarlegt frjálslynd fólk, hægra megin við miðju eða beint á henni. Þetta fólk hlýtur að velta fyrir sér innkomu Jóns Gnarr, ekki síst eftir giska magnað viðtal Stefáns Einars Stefánssonar við hann í Spursmálum á föstudag, þar sem hann var í beinni mótsögn við ýmsar áherslur Viðreisnar og talaði fremur eins og nýr forystumaður sem ætlar að breyta flokki í samræmi við eigin áherslur.

Viðreisn hefur til að mynda boðið upp í þverpólitískan dans á þingi með að einangra VG í andstöðu við virkjanir, svo nýta megi meira af grænni orku. Jón Gnarr kvaðst í viðtalinu ekki telja að virkja þurfi meira. Hann væri sósíalískur líberalisti og í hjarta sínu andsnúinn skrifræði og regluþunga, en harður stuðningsmaður inngöngu í Evrópusambandið! Þá sagði hann innviðina hér ekki þola áframhaldi innstreymi útlendinga, nokkuð sem ekki er líklegt að fólk eins og Sigmar Guðmundsson, þingmaður flokksins, taki undir.

Auðvitað er spennandi að fylgi fari upp og stemning verði til, þar sem fullrólegt hefur verið um skeið, en hætt er að brosið hafi stirðnað á mörgum borgaralegum vörum þegar Jón Gnarr tók að verja þéttingarstefnu borgarstjórnarmeirihlutans af fullri hörku, svo dæmi sé tekið. Ef ætlunin er að verða valkostur á hægri vængnum, þá er það varla rétta leiðin.

Innan Viðreisnar er nú spurt hvort Besti flokkurinn/Björt framtíð hyggi í reynd á yfirtöku flokksins. Að minnsta kosti er ljóst að gamalkunnug andlit samstarfsmanna Jóns Gnarr úr borgarstjórn eru líkleg til að dúkka upp í starfi Viðreisnar á næstunni, enda stutt í prófkjör. Í því sambandi má minna á, að margir úr þeirri maskínu tóku þátt í baráttu Jóns í nýliðnum forsetakosningum…