Þeir sem enn velta vöngum yfir bágri stöðu Sjálfstæðisflokksins og sókn Miðflokksins þessi misserin, ættu að lesa grein Bergþórs Ólasonar, þingflokksformanns Miðflokksins, í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann sinnir hinu vanrækta hægri af stakri samviskusemi og bendir á glórulausan vöxt ríkisútgjalda meðan verðbólga og vextir eru enn í hæstu hæðum.
Bergþór vísar til þess að Sigurður Ingi Jóhannson muni sem fjármálaráðherra kynna fyrsta fjárlagafrumvarp sitt á morgun og hafi í viðtölum boðað að í því sé hvorki að vænta skattahækkana né niðurskurðar.
„Það er jákvætt að engar beinar skattahækkanir séu áformaðar í fjárlögum eða svokölluðum bandormi, sem tekur á tekjuhlið ríkisins, en öruggt má telja að krónutölugjöld muni hækka, spurningin er bara um hversu mikið það verður þetta árið, enda er ríkissjóður búinn að taka sér það hlutverk að leiða árlegar hækkanir á gjaldskrám, enda hvers vegna ættu aðrir að halda aftur af sér ef ríkissjóður gerir það ekki?. Prinsipp ákvörðun um að hækka ekki krónutölugjöld, heldur sína þess í stað aðhald í rekstri ríkissjóðs hefur því miður ekki verið tekin síðan í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Ég hef ítrekað sagt að mér þyki Seðlabankinn hafa verið heldur einmanna í slagnum við verðbólguna undanfarin misseri.
Nú mætir fjármálaráðherra, eftir áralanga fordæmalausa aukningu ríkisútgjalda og tilkynnir að ekki sé þörf á neinum niðurskurði. Er það nú trúverðugt innlegg í verðbólguslaginn?
Þetta gerist á sama tíma og Reykjavíkurborg, undir forystu borgarstjóra Framsóknarflokksins, leggst gegn því að svokölluðum vaxtamörkum höfuðborgarsvæðisins verði breytt, þannig að verðþrýstingur sem skapast af viðvarandi lóðaskorti minnki frá því sem nú er og verið hefur. Á tungumáli Borgarlínukirkjunnar er nauðsynlegt að uppfæra skipulagsmörkin, þó ekki væri til annars en að auðvelda slaginn við verðbólguna. Það þarf að byggja meira!
Fyrirtæki og heimili hafa nú búið við 9,25% meginvexti Seðlabankans í rúmt ár. Svar ríkisstjórnarinnar, þegar hún er spurð hvað ætlið þið að leggja til málanna? Jú, Enginn niðurskurður! Varnaðarorð Fjármálaráðs í umsögn við gildandi fjármálaáætlun, sem var samþykkt í lok júní, eru þeirrar gerðar að ég hreinlega trúði því ekki þegar fjármálaráðherra tilkynnti að engan niðurskurð væri að finna í fjárlagafrumvarpi vikunnar.
Fjármálaráð benti réttilega á að „Minna aðhald [væri] í ríkisrekstri hér en í samanburðarlöndum“ og hélt áfram og sagði „Fjárhagsleg afkoma hins opinbera er veik, ekki síst vegna mikils útgjaldavaxtar undanfarin ár.“ og að „útgjaldavöxtur síðustu ára er ósjálfbær“.“
Og Bergþór spyr réttilega að lokum:
„Er ekki rétt að við hættum að plata okkur sjálf, eða öllu heldur að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hætti að plata sig sjálfa á kostnað skattgreiðenda. Hver mánuður sem ríkisstjórnin heykist á að taka til í eigin útgjaldaranni frestar því að verðbólguvæntingar lækki, sem tefur ákvörðun Seðlabankans um að lækka meginvexti, sem áfram leggur þungar byrðar á fyrirtæki og heimili í landinu.Þessu verður að linna. Það er komið nóg af stjórnlausum ríkisútgjöldum.“