Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tók algjöra U-beygju í nótt, þegar hún fór þess á leit við lögreglu að fresta brottflutningi palestínska drengsins Yazans Tamimi. Hann var þá staddur í Leifsstöð eftir að hafa verið sóttur á Landspítalann í gærkvöldi.
Í fleiri viðtölum en tölu verður komið á undanfarin misseri, hefur dómsmálaráðherrann hafnað því alfarið að geta haft pólitísk afskipti af einstaka málum eða tjáð sig um þau yfirhöfuð. En allt logaði í gærkvöldi og nótt innan ríkisstjórnarinnar vegna brottvísunarinnar og ráðherrar VG gerðu kröfu um að henni yrði frestað og rætt frekar. Og við því varð Guðrún af ótta Sjálfstæðisflokksins við að ríkisstjórnin gæti sprungið.
Málið sýnir hversu brothætt ríkisstjórnarsamstarfið er. Það er alltaf einu máli, einni ákvörðun frá því að springa. Með ákvörðun sinni hefur dómsmálaráðherrann tekið algjöra U-beygju frá fyrri afstöðu að kröfu samstarfsflokksins og skaðað um leið eigin trúverðugleika stórlega.
Og fulltrúar VG hafa í morgun gætt þess rækilega að láta fjölmiðla vita að þeirra afskipti hafi haft úrslitaáhrif í nótt.
Mitt í þessari pólitísku klemmu er ellefu ára gamalt barn, sem bundið er við hjólastól vegna vöðvahrörnunarsjúkdóms. Barn sem þurfti að upplifa brottvísun, uppnám og rask í nótt sem svo var frestað. Barn sem varð leiksoppur í pólitískum hrunadansi. Og eins og venjulega, veit enginn hvert framhaldið verður.