Undarlegt ferðalag

Nokkuð undarlegt hefur verið að fylgjast með pólitísku ferðalagi Arnars Þórs Jónssonar, fv. héraðsdómara, varaþingmanns og forsetaframbjóðanda upp á síðkastið og virðist enn og aftur mikið standa til, ef marka má margvíslegar yfirlýsingar hans í fjölmiðlum.

Stóran hluta síðasta árs boðaði Arnar Þór mikla hallarbyltingu innan Sjálfstæðisflokksins og fundaröð um land allt í því tilliti, en eitthvað minna varð þó úr en efni stóðu til. Hann gekk þó úr flokknum snemma árs er hann tilkynnti óvænt um forsetaframboð og taldi sig greinilega eiga töluverða möguleika, en að forsetakosningum afloknum í sumar gaf hann í skyn að líklega myndi hann dveljast langdvölum erlendis á næstunni til að endurmeta stöðuna.

Eitthvað virðist hafa breyst, því næst fréttist af Arnari Þór í fyrri viku og um helgina, þar sem hann boðar enn stofnun nýs stjórnmálaflokks, eða hann gangi til liðs við flokk sem þegar er starfandi. Og ekki nóg með það: Tíðinda sé að vænta nú strax eftir helgi og aðspurður, kvaðst hann ekki neita því að hafa átt í viðræðum við Miðflokkinn.

Allt er þetta mjög áhugavert og spennandi, ekki síst fyrir Miðflokksfólk sem fylgst hefur með þessum yfirlýsingum eins og aðrir landsmenn og ekki almennilega vitað hvaðan á það stendur veðrið. Engar kosningar hafa enn verið tímasettar og enginn flokkur byrjað að stilla upp á lista eða efna til prókjörs, þannig að vandséð er hvers vegna og hvað ætti að tilkynna nú á þessum tímapunkti. 

Í bili

Sérstaklega hefur Miðflokksfólki þótt sérstakt að heyra varaþingmanninn fyrrverandi lýsa nánast í smáatriðum þörfinni fyrir það að stofna nýjan „borgaralegan klassískan íhaldsflokk og hægra megin við miðju,“ því „slíkan flokk vanti á Íslandi“ um leið og hann segist opinn fyrir því að ganga í annan flokk – í bili – til að sleppa við allt umstangið sem hinu fylgi. 

Í bili!

Þeir sem vel þekkja til í íslenskum stjórnmálum, telja augljóst að atburðarás undanfarinna daga sé einhvers konar útgáfa af því sem átt hefur að vera hönnuð atburðarás til að setja tímasettan þrýsting á forystumenn Miðflokksins, svo þeir fáist til að leggja út rauðan dregil og bjóða Arnari Þór Jónssyni „öruggt þingsæti“ og frekari vegtyllur.

Vandinn er sá að innan Miðflokksins er lítil stemning fyrir slíku. Staðan er því sú, að framboðið af Arnari Þór virðist, eins og stundum áður, vera heldur meira en eftirspurnin og í mestu vinsemd væri kannski ráð fyrir hann að rifja aðeins upp helstu atriðin í því sem kallað hefur verið væntingarstjórnun og náum leið ofurlítilli jarðtengingu áður en lengra verður haldið.