VG sakar „hægri öflin“ um undirróður gegn ríkisstyrktri pólitík

Venju samkvæmt kenndi ýmissa kynlegra grasa í samþykktum ályktunum á landsfundi VG sem fór fram um helgina. Með merkilegri ályktunum hlýtur þó að teljast, þar sem vikið er að fjárframlögum ríkisins til stjórnmálaflokka:

„Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 lýsir yfir áhyggjum af undirróðri hægri aflanna í samfélaginu gegn fjárframlögum til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði.

Lög um starfsemi stjórnmálasamtaka voru endurskoðuð árið 2018 og voru fjárframlögin leiðrétt eftir að hafa staðið í stað frá hruni. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvörp um að framlögin verði lækkuð á nýjan leik og flokkunum gert heimilt að sækja hærri styrki til einkaaðila. Það býður heim hættu á feluleik, spillingu og leyndarhyggju.

Opinber og fyrirsjáanleg framlög til stjórnmálahreyfinga eru besta leiðin til að tryggja heiðarlegt stjórnmálastarf óháð fjárframlögum frá fjársterkum hagsmunaaðilum.“

Það var og. VG sér nákvæmlega ekkert athugavert við ríkisvæðingu stjórnmálanna, vill meira ef eitthvað er –– allt í nafni lýðræðisins. Og það er líklega þess vegna sem flokkurinn vill slíta ríkisstjórnarsamstarfinu, en samt helst ekki alveg strax, því í lok janúar verða greiddar úr ríkissjóði mörg hundruð milljónir til flokkanna í samræmi við úrslit síðustu kosninga, sem í þessu tilfelli voru fyrir þremur árum. Fyrir flokk sem rær lífróður og berst gegn því að þurrkast út, munar mjög um þessa fjármuni…