Engum kemur á óvart, að Guðmundur Ingi Guðbrandsson hafi ákveðið að sækjast ekki eftir því að verða áfram formaður Vinstri grænna, það hefur lengi legið fyrir að Svandís Svavarsdóttir tekur við því hlutverki.
Það er skynsamlegt hjá honum að lýsa yfir stuðningi við hana og auka þannig möguleikana á að vera áfram varaformaður flokksins, þótt hann hafi tímabundið tekið við formennsku við brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur.
En þegar yfirlýsing hans á samfélagsmiðlum í dag er skoðuð betur, er ekki hægt annað en vekja athygli á því hvernig Vinstri græn þakka Sjálfstæðisflokknum og Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra fyrir liðsinnið í síðustu viku, þegar Guðrún Hafsteinsdóttir var látin taka algjöra U-beygju til að koma í veg fyrir stjórnarslit.
„Fleiri og sterkari raddir þarf til að tala fyrir náttúrunni, réttindum hinsegin fólks, kvenna, fatlaðs fólks og innflytjenda, og berjast fyrir vinstri gildum þar sem við fáum öll raunverulega að vera með í samfélaginu. Ísland þarf sterka félagshyggjustjórn á næsta kjörtímabili og ég vil taka þátt í að láta það gerast.“
Þetta er alveg hreint makalaus yfirlýsing frá ráðherra og formanni VG sem er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hann segist efnislega vilja taka Sjálfstæðisflokkinn út úr stjórn og líklega setja Samfylkinguna inn í staðinn.
Aðalatriðið er auðvitað að VG haldi sínum völdum og áhrifum. Það gefur auga leið…