Fáránlega fyndið sjónvarpsefni

Eitt best heppnaða sjónvarpsverkefnið hér á landi um langa hríð hlýtur að vera nýja þáttaröðin um Iceguys í Sjónvarpi Símans. Ekki dæma plötuna af albúminu, eins og sagt var; þetta er fáránlega fyndið og vel gert sjónvarpsefni; uppfullt af góðum frösum og vel skrifuðum atriðum sem koma reglulega á óvart.

Það er frábær hugmynd að láta landskunna poppara gera mátulegt grín að sjálfum sér og sýna stofnun strákabands sem raunveruleikasjónvarp. Friðrik Dór segist grátandi ekki geta sungið „Í síðasta skipti“ enn eitt skiptið, hvað þá „Glaðasti hundur í heimi“ 500 sinnum hverja helgi. Stóri bróðir hans, Jón Jónsson, er með allt of hvítar tennur og allt of hress, Magni er kannski of pönkaður fyrir markhópinn en samt „legend“, Aron Can er mögulega með smá lygaáráttu og Hr. Hnetusmjör vill gjarnan fremur þéna dollara en krónur.

Hannes Halldórsson, landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi, er maðurinn á bak við þættina ásamt handritshöfundinum Sóla Hólm og drengjunum sjálfum.

Ég horfði á fyrsta þátt með dóttur minni og vinkonu hennar. Þær eru sjö og átta ára og kunna öll lögin, hlógu að bröndurunum og verða mættastar á föstudag þegar næsti þáttur dettur í hús. Ég ætla að horfa með þeim. Það eru meðmæli.

Iceguys eru í Sjónvarpi Símans.