Lestu þetta ef þig langar að verða edrú

Eftir Magnús Torfason:

Til þess að alkóhólisti nái því að verða edrú og ánægður þarf tvennt. Hann þarf að fræðast nóg um sjúkdóminn og hann þarf að þjást nógu mikið.

Þjást nógu mikið, segi ég. Til að verða edrú og sátt/ur þarftu að sannfærast um að þú sért alki. Það gengur ýmsum illa og þeir hinir sömu þurfa að reka sig á aftur og aftur, það er að prófa aftur og aftur að drekka til að lokum að sannfærast um að þeir séu alkar (fæddir með alkóhólísku genin). Sumum nægir ekki ævin, sannfærast aldrei og drekka fram í andlátið.

Þegar maður byrjar að drekka veit enginn hver er með þessi alkóhólísku gen í sér. Flestir drekka „normalt“ fyrstu árin. Karlar drekka oft upp í tíu ár (ef þeir eru eingöngu í brennivíni) normalt uns sjúkdómurinn fer að segja til sín. Hjá sumum gengur þetta miklu hraðar. Þegar hann (sjúkdómurinn) fer að láta til sín taka verður ekki aftur snúið. Þér getur aldrei batnað. Stefnir sífellt niður á við. Eina ráðið er að halda þessum ólæknandi króníska sjúkdómi í skefjum. Ég hef hlustað á þúsundir alka og hundruð sérfræðinga ræða þessi mál og enn sé ég ekki neina aðferð sem dugir nema aðferð AA samtakanna.

Þessi sjúkdómur er ólæknandi enn í dag.

En lifa má góðu lífi ef þú lærir og hlustar og sannfærist.

Sirka 15 % eru með þessi alka gen.

Þegar þú tekur fyrsta sopann veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Enginn er öruggur fyrr en á reynir.

Eina leiðin til að komast hjá að láta á þetta reyna er að drekka ekki, en það eru mjög fáir sem eru svo sterkir á svellinu, flestir vilja prófa.

Litla gula hænan sagði „ekki ég“. Alkóhólisminn kemur því flestum á óvart, læðist aftan að mönnum og oft er viðkomandi sjálfur síðastur að sjá hann. Berst á mót fram í rauðan dauðann.

Það er erfitt að viðurkenna og því þurfa margir að þjást mikið áður en þeir ná að sannfærast og verða edrú.
EINU SINNI ALKI; alltaf ALKI.