SOFESTIVE er nýtt og spennandi fyrirtæki

Tara Sif Birgisdóttir og María Rós Kristjánsdóttir

Eftir fall flugfélagsins WOW air sat margt starfsfólk eftir í óvissu. En engin nótt er svo dimm að eigi komi dagur á eftir.

Fyrrum flugfreyjur, þær María Rós Kristjánsdóttir og Tara Sif Birgisdóttir stofnuðu nýverið fyrirtækið SOFESTIVE.

SOFESTIVE er fyrirtæki sem sérhæfir sig í viðburða- og verkefnastjórnun fyrir fyrirtæki. Sér fyrirtækið um allt sem snýr að því að skipuleggja viðburði. Þar með talið staðsetningu, veitingar, skemmtikrafta, skreytingar og allt þar á milli.

Hvenær vaknaði þessi hugmynd ?

„Eftir fall WOW air rákumst við á hvor aðra á fundi sem var haldinn á vegum Flugfreyjufélagsins. Þar duttum við í stutt spjall sem endaði á því að við ákváðum að hittast í kaffi og ræða um framtíðarplön og út frá því kom hugmyndin að SOFESTIVE“. 

Tara Sif starfaði sem flugfreyja hjá WOW air frá árinu 2013, en samhliða því var hún danskennari og kláraði Viðskiptafræði við Háskóla Íslands. María Rós vann hjá WOW air frá árinu 2016 og er menntaður stærðfræðikennari frá Háskóla Íslands. Höfðu þær vitað af hvorri annarri í nokkur ár áður en þær kynntust fyrir alvöru í gegnum flugfélagið.

Segjast þær vega vel upp hvor aðra. Þær séu jákvæðar, metnaðarfullar og hugsi út fyrir boxið. Þær hafi tekið þá ákvörðun að einbeita sér alfarið að því að koma fyrirtækinu af stað, vera sýnilegar og vinna að þeirra fyrstu verkefnum. 

En hver voru fyrstu skrefin að því að koma þessu af stað ? 

„Fyrstu skrefin voru að þróa hugmyndina að fyrirtækinu og vera með skýra sýn og stefnu. Næsta skref var að þróa vörumerkið okkar og setja upp heimsíðu. Við vorum heppnar að landa verkefni á vegum Ölgerðarinnar strax í byrjun sem hjálpaði okkur svo sannarlega að koma öllu af stað. Af öllu þótti okkur líklega erfiðast að finna heiti á fyrirtækinu“. 

Aðspurðar út í sérstöðu fyrirtækisins segjast þær vera spenntar fyrir því sem þær séu að gera, þær séu frumlegar, stútfullar af hugmyndum og vilji gera hlutina öðruvísi. Þær hafi mikinn áhuga á því að taka að sér stærri verkefni og viðburði fyrir einstaklinga, þar með talin brúðkaup og allan þann undirbúning sem því fylgir.

Fyrirtækið kemur með ferskan blæ á markað viðburðastjórnunar og hefur það að markmiði að vera leiðandi í skapandi og skemmtilegum viðburðum.

Ef fólk vill hafa samband eða fá fleiri upplýsingar skal heimsækja heimasíðu þeirra sofestive.is.


Viljinn óskar þeim vinkonum til hamingju og góðs gengis með nýja fyrirtækið.