Alvöru kosningavél sjálfstæðisfólks að baki framboði Höllu Hrundar

Forsetakjör á Íslandi er persónubundið og einstakir flokkar fylkja sér því ekki að baki tilteknum frambjóðendum. Athygli vekur að þekktar kosningamaskínur innan Sjálfstæðisflokksins dreifast að minnsta kosti á þrjá mismunandi frambjóðendur og er stór hluti Deigluarms flokksins á bak við Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra ásamt forsætisráðherrahjónunum fyrrverandi, Geir H. Haarde og Ingu Jónu Þórðardóttur og dætrum þeirra tveim, sem hafa sig mjög í frammi í baráttunni.

Deiglan hefur verið misáberandi hugveita og vefrit á undanförnum árum, en ábyrgðarmaður hennar frá stofnun hefur verið Borgar Þór Einarsson lögfræðingur og fv. aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Hann starfar nú í Brussel. Hann er sonur Ingu Jónu og stjúpsonur Geirs.

Með honum í Deiglunni frá upphafi hefur verið Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og fv. formaður SUS og meðeigandi Höllu Hrundar og eiginmanns hennar, Kristjáns Freys Kristjánssonar í sprotafyrirtækinu 50skills, eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum.

Sjálf var Halla Hrund pistlahöfundur á Deiglunni ásamt m.a. Helgu Láru Haarde, sálfræðingi og dóttur Geirs og Ingu Jónu, en hún situr nú í kosningastjórn framboðs hennar og er tengiliður þess við landskjörstjórn. Önnur dóttir þeirra Geirs og Ingu Jónu, Hildur María Haarde, hefur einnig verið áberandi í stuðningsteymi Höllu Hrundar.

Sjálf hefur Inga Jóna nú stigið fram sem opinber stuðningsmaður Höllu Hrundar, með aðsendri grein í Skessuhorni, þar sem hún skrifar meðal annars:

„Styrkleikar Höllu Hrundar felast í reynslu hennar og þekkingu, en ekki síst í persónuleika og skapgerð. Ég er sannfærð um að hún mun gegna þeim skyldum sem embætti forseta Íslands krefst með miklum sóma.  Hún mun verða traustur fulltrúi þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og hún hefur alla burði til að sameina fólk að baki sér, ólíka hópa með ólíka sýn.  Hún verður forseti allrar þjóðarinnar.“

Halla Hrund Logadóttir með Helgu Láru Haarde þegar formlegu forsetaframboði var skilað til landskjörstjórnar í Hörpu á dögunum.