Árás mótmælanda á Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra á málþingi í Veröld í hádeginu í dag er sorglegur vitnisburður um þróun sem vart hefur orðið erlendis og er að færast hingað til Íslands, að aðgerðarsinnar telji ekki nóg að gert með hefðbundnum mótmælum og láti verkin fremur tala til að koma í veg fyrir að önnur sjónarmið en þeirra eigin komist að í umræðunni. Að sá sem hefur hæst og lætur öllum illum látum eigi að hafa sitt fram.
Engu breytir þótt það hafi ekki verið verra en glimmer sem hellt var yfir utanríkisráðherra á fundinum. Varnarleysi okkar æðstu ráðamanna kemur á opinberum vettvangi hefur komið til af góðu; við höfum ekki þurft að óttast um öryggi þeirra innan um almenning. En atburðir sem þessi hljóta að vekja upp alvarlegar spurningar um hvort sá tími sé einfaldlega liðinn, hvort héreftir þurfi lögregla og öryggisvörður að fylgja ráðherrum og forseta hvar sem þeir fara og koma í veg fyrir að eitthvað alvarlegt gerist.
Það er ekki víst að það verði glimmer næst.
Áhugavert er í þessu sambandi að nefna, að svo virðist sem árásin hafi verið þaulskipulögð. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti að ávarpa fundinn, enda var hann haldinn í Veröld – húsi Vigdísar Finnborgadóttur til að minnast þess að 75 ár eru liðin frá því mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur og beinlínis haldinn af forsætis- og utanríkisráðuneytinu í samvinnu við Alþjóðamálastofnun og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, en hún forfallaðist. Mótmælendur hentu rauðu glimmeri tvívegis á utanríkisráðherra og hann fékk ekki tækifæri til að ávarpa fundinn vegna háværra frammíkalla úr sal.
Ef mótmælendurnir halda að þarna hafi þeir sigrað rökræðuna og unnið málstað sínum gagn, er það mikill misskilningur. Þessi framganga var til skammar, ógnar öryggi æðstu ráðamanna og kallar á tafarlaus viðbrögð lögreglu. Það er sorglegt að þannig hafi farið, en líklega var það aðeins tímaspursmál. Í því sambandi er vert að geta þess að fyrir tveimur mánuðum keyrðu menn um í bílum um miðborg Reykjavíkur og þeyttu bílflautur og veifuðu fána Palestínu til að fagna voðaverkum Hamas í Ísrael; nauðgunum, mannránum og fjöldamorðum á saklausum almenningi. Það er ótrúlegt, en gerðist engu að síður á Íslandi.