Einn af þeim rithöfundum sem gengur betur í útlöndum en hér heima

Lilja Sigurðardóttir hefur verið á þeytingi um heiminn þetta haustið við að fylgja eftir bókunum sínum sem nú koma út á tuttugu tungumálum. „Ég er búin að vera í Englandi, Finnlandi, Svíþjóð og Frakklandi þar sem alls staðar eru nýkomnar út bækur svo að það er nóg að gera og mikið fjör,“ segir hún í samtali við Viljann. En nú er ferðalotunni lokið og Lilja loksins komin heim til þess að kynna nýju bókina sína.

„Dauðadjúp sprunga er fimmta og síðasta bókin um Áróru og Daníel og lokar því þeirri seríu, vonandi með ásættanlegum hætti.“

Um hvað er bókin?

Dauðadjúp sprunga fjallar um Áróru, skosk-íslenska konu sem flutti til Íslands fyrir nokkrum árum til þess að leita að Ísafold systur sinni sem hvarf hér. En nú, þegar lík systur hennar er loksins fundið líður Áróru betur og hún getur hætt að leita. En málið er samt sem áður óleyst því lögreglan hefur fram að þessu gengið út frá því að kærasti Ísafoldar hafi myrt hana en lík hans fannst síðan á sama stað og lík Ísafoldar. Og þegar Áróra fær vitneskju um óhugnanlegt atriði í tengslum við líkfundinn snýst líf hennar á hvolf. Til að dreifa huganum einbeitir hún sér að peningaþvættismáli sem Daníel vinur hennar er með til rannsóknar. Þar koma inn fleiri persónur sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi og enn á ný liggja þræðirnir í Engihjallann, þar sem Ísafold lifði og dó.“

Hvers vegna ákvaðstu að skrifa hana?

„Sagan er bæði framhald af bókunum fjórum á undan en líka sjálfstæð saga sem má lesa eina og sér. Þannig að ég þurfti bæði að hnýta ýmsa þræði úr fyrri bókunum en líka skrifa spennandi sögu með sitt eigið umfjöllunarefni. Og í þessari bók sjáum við loks sjónarhorn systurinnar og fáum að vita hvað raunverulega gerðist áður en hún hvarf.

Stór hluti umfjöllunarefnisins er ofbeldi í nánu sambandi sem er trúlega sú tegund glæpa sem algengust er. Fólk í útlöndum segir gjarnan við mig að það hljóti að vera erfitt að vera glæpasagnahöfundur á Íslandi því hér séu engir glæpir, en ég er yfirleitt fljótt að leiðrétta þann misskilning. Hér er nóg af glæpum þó að morðtíðni sé lág. Og að auki er hin íslenska Horfinnamannaskrá talsverður innblástur fyrir íslenska krimma.“

Hvernig er að taka þátt í íslenska jólabókaflóðinu? Lesa upp, fylgjast með bóksölu, lesa dóma. Er þetta keppni?

„Það er bara skemmtilegt. Ég var reyndar í miklum bókatúrum í október og nóvember svo að ég hef ekki kynnt nýju bókina hér heima jafn mikið og æskilegt er en hef þó náð nokkrum viðburðum þar sem gefst færi á að hitta lesendur, sem er alltaf svo gaman. Svo er ég bæjarlistamaður Kópavogs í ár og hef staðið fyrir nokkrum viðburðum til að kynna glæpasögur fyrir Kópavogsbúum, sem hefur verið mjög gaman. 

En varðandi keppnis-hlutann, þá er auðvitað gaman þegar gengur vel en maður verður að passa sig á að einblína ekki of mikið á metsölulistana því þeir segja ekki alveg nóg. Helmingur bóksölu á Íslandi fer nefnilega fram vikuna fyrir jól. En ég er einn af þeim höfundum sem gengur betur í útlöndum en hér heima svo að ég væri alveg til í að klifra íslensku listana hraðar en ég er samt almennt frekar róleg yfir því.“

Er rithöfundurinn alltaf að? Meira í farvatninu?

„Já. Ég er alltaf að. Alltaf með nýja sögu í hausnum og hlakka alltaf til að byrja að skrifa eitthvað nýtt. Ég hef nefnilega gaman af skrifunum sjálfum, sem furðulegt nokk, ekki allir rithöfundar hafa. Mínar bestu stundir eru snemma á morgnana þegar ég hef lausan tíma til að dengja mér beint í skrifin. En það er merkilegt hversu lítill skriftíminn er orðinn því eftir því sem bækurnar mínar ferðast víðar um lönd, því meiri tími fer í ferðir og alls konar samskipti og verkefni sem ekki tengjast beinlínis tengjast því að skrifa. En núna klæjar mig í fingurna að byrja á næstu sögu.“

Brot úr bókinni Dauðadjúp sprunga

Það rigndi eins og hellt væri úr fötu og Felix beið nokkra stund í bílnum sínum í von um að það stytti upp eða drægi aðeins úr úrhellinu áður en hann hætti sér út. Hann kveikti á morgun-útvarpinu en festi ekki hugann við það. Hugsun hans var óskýr og hann var dauðsyfjaður þrátt fyrir að hafa farið óvenju snemma að sofa. Hann hafði nefnilega ákveðið að vakna vel fyrir hádegið og taka sína venjubundnu innheimtuferð fyrir Sturlu núna, því í gærkvöldi hafði hann bókstaflega ekki náð í neinn. Það var eins og menn hefðu tekið sig saman um að láta ekki ná í sig, svo hann hafði gefist upp snemma kvölds og farið heim að sofa og ákveðið að prófa að taka rúntinn snemma dags í staðinn.

Það virtist ekki ætla að draga úr rigningunni í bráð svo að hann yrði að harka af sér þennan stutta spotta frá bílastæðinu að blokkinni og vona að hann yrði ekki holdvotur. Hann renndi upp jakkanum sínum, bretti kragann upp á hálsinn og blótaði því í huganum að aldrei þessu vant var hann ekki í hettupeysu svo að bleytan myndi rústa hárinu sem hann hafði haft talsvert fyrir að koma í skorður í morgun, með skiptingu í miðju og toppinn mátulega slútandi fram á ennið. Hann dró andann djúpt, steig út úr bílnum og spretti af stað yfir stæðið og hægði ekki á sér fyrr en í undirganginum sem tengdi götuna við inngangana í íbúðirnar. Þar hristi hann sig eins og hundur og stóð kyrr dálitla stund til að róa hjartsláttinn.

Fyrsta stopp var Hippinn. Hann var aldraður smádíler sem hafði selt gras áratugum saman en var núna kominn í pillurnar líka. Felix bankaði á dyrnar og það leið góð stund áður en Hippinn opnaði. Sítt hárið var í óreiðu og augun virtust blóðhlaupin. 

„Felix,“ muldraði hann um leið og hann rétti fram seðlavöndul. 

„Viltu segja Sturlu að restin komi í næstu viku?“ Felix kinkaði kolli en beygurinn tók hann kverkataki svo hann þurfti að ræskja sig.

„En þú veist að Sturla er ekki ánægður þegar greiðslurnar koma seint.“ Það þurfti svo sem ekki að segja Hippanum það. Sturla var frægur fyrir hörkuna og þeir sem lentu í skuld við hann gátu átt von á að borga með blóði. Og ekki bara þeir sem skulduðu, líka þeir sem áttu að innheimta. Felix hlakkaði sannarlega ekki til þess að færa honum skilaboðin frá Hippanum. 

Næsta stopp á rúntinum var hjá Barþjóninum. Það var verið að þrífa barinn þegar Felix kom og allir stólar á hvolfi uppi á borðum, en þó að bæði dyr og gluggar stæðu galopin var eins og lyktin af stöðnum bjór væri föst í málningunni og skúringasápan gerði lítið annað en að blandast henni í væmnum kokteil sem Felix klígjaði við. Barþjónninn renndi umslaginu strax yfir barborðið. 

„Það er allt þarna núna og smá aukagreiðsla til þess að bæta upp fyrir síðustu viku,“ sagði hann. „Viltu passa að láta Sturlu vita af því?“ 

„Ég skal gera það,“ sagði Felix og stakk umslaginu inn á sig.

„Þú varst heppinn að Sturla kom ekki sjálfur að innheimta það sem vantaði upp á.“ Hann sá örvæntinguna kvikna í augum Barþjónsins og það gladdi hann. Það var gott að allir vissu af því að Sturla fylgdist með. Það gerði hans störf auðveldari. Honum fannst ekkert gaman að þurfa að lemja fólk.

Dauðadjúp sprunga – Lilja Sigurðardóttir – Forlagið.