Ástæða er til að birta hér hugleiðingar eins okkar helsta sérfræðings í öryggis- og varnarmálum, Friðriks Jónssonar sendiherra, sem hann birti fyrr í sumar á samfélagsmiðlum, þar sem hann deilir reynslu sinni og ræðir um ófriðarbálið sem kynt er undir þessa dagana af miklum móð.
„Það er tæpast nokkur sem upplifað hefur stríð að óska þess að gera það aftur. Þau hafa þó fundist í gegnum mannkynssöguna. Rétt um tveir áratugir liðu á milli þess sem við köllum fyrri og seinni heimsstyrjöldina – og bara það enduspeglar barnslega einfeldni okkar íslendinga – og flestir lykilleikendur í þeirri seinni höfðu verið á víglínunni í þeirri fyrri.
Samt varð sú seinni. Eða númer tvö í röðinni af fleiri heimsstyrjöldum sem sýnast – sérstaklega núna – nánast óumflýjanlegar. Átök og stríð hafa fylgt mannkyni frá upphafi. Mörg okkar stærstu framfaraskref hafa þó oft fylgt stríðsrekstri. Uppfyndingarsemi í aðdraganda og á meðan stríði stendur ýtt undir tækniframfarir, en ömurðin, eyðileggingin og mannfórnin orðið hvati framfara í réttindum og virði manneskjunnar sem einstaklings.
Stríð er helvíti á jörðu
Stríð er samt helvíti á jörðu. Líka stríð sem ekki eru stríð. Það eru mörg slík. Eitt af þeim lengstu á þessari öld stóð í tvo áratugi í Afganistan. Það var samt aldrei formlega stríð og megin átök stóðu tiltölulega stutt veturinn 2001 og 2002. Þegar friðargæsla NATO hófst formlega í landinu 2003 voru þó ennþá átök – og þeim linnti aldrei. Og jafnvel eftir að veru alþjóðlegs herliðs lauk standa átök þar enn.
Í 18 mánuði dvaldi ég við störf í Afganistan 2009 og 2010. Aldrei á eiginlegri víglínu – enda formlega engin slík. Upplifði þó í mismiklu návígi nokkrar sjálfsmorðssprengju-, skot- og eldflaugaárásir á og við mína vinnustaði. Lyktin í kjölfar slíkra árása – af brenndu holdi og brunnum leir, púðri og kerósín – líður eflaust aldrei úr minni. Ólýsanleg samt.
Ég var heppinn. Fyrst og fremst að vinna við að aðstoða aðra við að eiga við praktískar áskoranir viðvarandi átaka – sem voru alltaf alveg að klárast. Allan tímann vorum við ekki nema tveimur til þremur glærukynningum frá fullnaðarsigri.
Fyrsta glærukynningin gekk samt ekki vel. 300 glærur ef ég man rétt. 9 júlí 2009. Yfirmaðurinn, þessi með 4 stjörnurnar, sagðist hafa „ælt yfir þær allar” þegar hann fékk afritið sér til fróðleiks fyrirfram. Þær eru ýmsar áskorarnirnar í stríðinu. Við komumst ekki lengra en á glæru þrjú þann daginn.
Við Íslendingar erum heppin
Við erum heppin Íslendingar. Höfum ekki upplifað alvöru átök á okkar góða landi að neinu marki síðan stuttu eftir þjóðveldisöld. En einmitt af því hvað við vorum vígreif – hjuggum mann og annan – þá fór svo að ekki einungis glötuðum við sjálfstæði og fullveldi, heldur einnig réttinum og getunni til að geta með vopnum borið hönd fyrir höfuð. Það var kannski okkar mesta niðurlæging, og varð meðal annars vegna þess að við höfðum misbeitt því valdi um of.
Okkur var einfaldlega ekki treystandi. Afvopnun þýddi líka að líkurnar á uppreisn gegn konunglegu valdi urðu hverfandi.
Sjálfstæðishreyfingin íslenska átti erlendan uppruna. Íslenskir námsmenn erlendis fluttu inn hugmyndir um endurheimt frelsis og fullveldis. Framkvæmd þess átti þó á endanum allt undir skjóli erlendrar herverndar heimafyrir og hernáms Danmerkur af Þýskalandi nasismans. Við töluðum, en árangurinn – lýðveldi og fullveldi – var tryggður í skjóli erlends vopnavalds. Annarra en okkar sjálfra.
Samhliða – án votts af kaldhæðni – hefur íslendingum verið seld sú útgáfa af sjálfum sér að hér búi sérlega friðelskandi þjóð umfram aðrar. Fullveldistapið og niðurlægingin sem fylgdu sviptingu getunnar og leyfis til sjálfsvarnar eru sveipaðar dulúðugum friðarljóma. Við erum ekki vopnlaus af því að við erum lúserar – svo ég sletti – heldur af því að við erum sérlega friðelskandi umfram öll önnur lönd og aðrar þjóðir.
Hlífið mér!
Það er því bæði blessun og bölvun að þegar rætt er um stríð, afleiðingar þess, orsakir og hvernig eigi að leysa eða bregðast við, að þá upp til hópa vitum við ekkert um hvað við erum að tala. Bullum bara.
Það vakti athygli mína að í meintum kappræðum forsetaframbjóðenda fyrir stuttu var merkjanlegastur munur á afstöðu þeirra sem höfðu komið til Úkraínu – séð með eigin augum afleiðingar ólöglegs og yfirgengilegs innrásarstríðs Rússlands – og hinna sem alla jafna búa við þau forréttindi að vera pakkað í bómul. Að minnsta kosti þegar kemur að því að upplifa stríð eða afleiðingar þess.
Friðelskandi þjóð?
Það þarf ekki að hafa upplifað og fundið lykt af brenndu holdi og brunnum leir til að mega hafa skoðun á því hvort Ísland eigi að styðja vopnakaup fyrir Úkraínu. En það er þó orðið nokkuð viðurkennt að þegar ofbeldi skal mætt er rétt að hlusta á fórnarlömbin og hvað þau telja sig þurfa.
Síst þurfa þau lærðan lestur – jafnvel með glærum – um kosti þess að vera friðelskandi þjóð. Sérstaklega frá þjóð sem getur leyft sér slíka dyggðaskreytingu í skjóli erlends vopnavalds.
Stríð er helvíti á jörðu. Með réttu er það nokkuð sem enginn vill. En stundum er ekkert val. Þá þarf kjark til að gera það sem er rétt, jafnvel þó það sé óþægilegt og erfitt. Í þeim efnum, eins og svo mörgum öðrum, er kannski best að fyrst og fremst hlusta og læra.
Og stundum er hjálplegt að líta í spegil og kanna hvort ímynduð sjálfsmynd sé í samræmi við raunveruleikann.
Megi friður ríkja.“