Eitthvert furðulegasta viðtal seinni ára birtist í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gær, þar sem framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkur viðraði ímyndaðar áhyggjur fólks af nafninu kirkjugarður og fyrir áformum um að þróa kirkjugarða úr einmitt því hlutverki og frekar í átt við almenningsgarða.
Ekki er vitað til þess að orðið kirkjugarður hafi truflað nokkra einustu manneskju í landinu eða að kross væri í merki Kirkjugarða Reykjavíkur, en nú er krossinn horfinn úr einkennismerkinu og komið til tals úr svonefndri stefnumótunarvinnu kirkjugarðanna, að kalla þá frekar minningarreiti en kirkjugarða.
Þetta hljómar eins og súrrealískt grínatriði úr smiðju Monty Python, en er það ekki. Starfsfólki kirkjugarðanna til upprifjunar er rétt að undirstrika að almenningsgarðar á borð við Hljómskálagarðinn, Guðmundarlund og Klamratún eru ágætir til síns brúks, en þeir eru ekki kirkjugarðar þar sem látnir hvíla og fólk sækir heim til að eiga kyrrðarstund með sínum nánustu og vitja minninga.
Löng hefð er fyrir því að fallegir kirkjugarðar þjóni einnig hlutverki sem almenningsgarðar, þar sem gróður og dýralíf þrífst með ágætum, en það gerðist einmitt vegna þess að þar var fyrir kirkjugarður; helgur reitur sem fólk sækir heim.
Rithöfundurinn Einar Kárason sagði enda á fésbókinni í gær, sýnilega hálfgáttaður:
„Heitið yfir svona staði hefur verið kirkjugarður í þúsund ár á Íslandi. Dugir mér.“
Undir það skal tekið.