Fleyg urðu ummæli Heiðars Guðjónssonar á dögunum að ríkisstjórnin minnti á „drukkinn sjómann“ á eyðslufyllerí. Sjómannastéttin móðgaðist vitaskuld, en allir vita við hvað er átt og ekki þarf að leita lengra en í Fossvoginn til að finna dæmi um glórulausa stjórnunarhætti sem benda ekki til þess að mikil virðing sé borin fyrir peningum skattborgaranna, svo vægt sé til orða tekið. Eða að forgangsraðað sé í þágu mikilvægustu þátta almannaþjónustunnar og tekið tillit til verðbólgu í landinu og þróunar ríkisútgjalda.
Alda, brú yfir Fossvog, var til enn einn ganginn til kynningar hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar á dögunum. Undirbúningur fyrir útboð er langt á veg kominn en tvö útboð eru í undirbúningi, annars vegar fyrir fyllingar og hins vegar fyrir smíði brúarinnar. Alda er ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum, ásamt því að vera lykillinn að leið Borgarlínunnar yfir Fossvog. Hún er sögð eiga að sinna fjölbreyttum ferðamáta fólks, sem er vitaskuld stofnanamál yfir allt annað en það sem fólk vill helst nota hér á landi, nefnilega einkabílinn.
Framkvæmdin er semsé á fullri ferð, enda þótt langt sé síðan þáverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði að endurskoða þyrfti áform um samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu og borgarlínuna. Ekkert hefur lengi heyrst af þeirri endurskoðun, en á meðan er auðvitað allt á fullri ferð. Í Morgunblaðinu kemur enda fram að kostnaður hafi verið algjört aukaatriði í ferlinu fram að þessu; valin hafi verið langdýrasta útfærslan í hönnunarsamkeppni Vegagerðarinnar og kostnaðaráætlun ekki haft áhrif á mat á tillögum.
Skilaboðin voru semsé: Það er nóg til. Þess vegna hafa upphaflegar áætlanir um að göngubrúin kosti um 2,2 milljarða breyst á þremur árum yfir í 8,8 milljarða, sem er fjórföldun. Allir vita svo auðvitað að framkvæmdin sjálf verður miklu dýrari en ráð var fyrir gert af allskonar ástæðum, eins og alltaf gerist á Íslandi, svo að endanleg upphæð framkvæmdar sem fáir munu nota verður eitthvað vel á annan tug milljarða króna!
Er von nema gárungarnir spyrji, hvort göngubrúin eigi að vera gullhúðuð miðað við þennan kostnað?