Stemningin súrnar í framlínunni

Óhætt er að segja að stemningin sé farin að súrna verulega hjá fólkinu sem stendur í framlínu heilbrigðiskerfisins og lögreglunnar þegar kemur að baráttunni gegn kórónuveirunni Covid-19.

Hjúkrunarfræðingar eru á leið í verkfall eftir annasaman vetur og allt virðist stál í stál við samningaborðið. Yfir vofir ógnin um lagasetningu á verkfallið (nokkuð sem hjúkrunarfræðingar þekkja of vel á eigin skinni) og ómögulegt er að segja hvernig slíku verði tekið. Varla stendur til að flytja hjúkrunarfræðinga með lögregluvaldi í vinnuna, nauðuga viljuga? Og hverjir ættu að sinna slíku? Kjarasamningslausir lögreglumenn, sem sviptir hafa verið verkfallsrétti?

Þeir hafa þurft að sætta sig við allt of lág laun, mikið vinnuálag og til viðbótar nú smithættu vegna veiruskrattans.

Þrír lögreglumenn á Suðurlandi eru nú í einangrun eftir handtöku rúmenskra glæpamanna sem á einhvern óskiljanlegan hátt var hleypt inn í landið, þegar það átti að vera lokað með einhverjum undantekningum. Það segir sína sögu að fjórtán Rúmenar gista nú farsóttarhúsið grunaðir um brot á reglum um sóttkví, flestir nýkomnir til landsins á tímum þegar aðeins fólk í nauðsynlegum erindagjörðum átti að fá að koma.

Hvað héldu tollverðir að allir þessu rúmensku karlmenn væru að gera hingað? Hvaða vinnuveitandi sagðist ætla að bera ábyrgð á þeim?

Axarsköft í landamæraeftirliti

Það er rétt hjá Ingu Sæland, að það þarf opinbera rannsókn á þeim axarsköftum sem landamæraeftirlitið á Keflavíkurflugvelli gerði í þessu máli.

Hetjusaga lögreglukonu var sögð á Viljanum í gær, en í gærkvöldi bættust við fréttir á Vísi við af tveimur lögreglumönnum til viðbótar sem greinst hefðu með smit. Annar þeirra hafði þegar misst af eigin útskrift vegna einangrunarinnar. Þar að auki er maki hans gengin 39 vikur með barn þeirra og er útlit fyrir að hann muni missa af fæðingu þess.

Innan heilbrigðiskerfisins og lögreglu heyrist hvíslað að erfiðara sé en áður að fá fólk til að vinna yfirvinnu við þessar aðstæður. Og mun erfiðara verði að manna lista bakvarðasveita þegar málið snýst um opnun landamæra og viðskiptahagsmuni, en ekki þjóðarheill eins og í mars og apríl.

Veiran hefur lifað góðu lífi utan landsteinana. Hún er nú aftur komin á ferðina hér á landi. Margir óttast að hópsýkingar komi upp á næstu dögum og aukinn fjöldi smita. Þess vegna hafa þrír upplýsingafundir verið boðaðir í næstu viku.

Og rúsínan í pylsuendanum er súr eins og annað sem hér hefur verið á borð borið. Erlendur ferðamaður sem kom hingað til lands í vikunni og reyndist sýktur, var með meira innihald af veirunni sem veldur Covid-19 en nokkru sinni áður hefur greinst hér á landi. Og lögreglumennirnir tveir sem greindust jákvæðir í gærkvöldi, höfðu reynst neikvæðir við fyrstu skimun. Það segir sína sögu um það hversu áreiðanleg skimunin á Leifsstöð getur verið, með allri virðingu fyrir því fyrirkomulagi.

Það sýnir vel vandann sem við er að eiga. Þess vegna þurfum við öll að fara varlega og því miður er nauðsynlegt að spóla andlega nokkrar vikur aftur í tímann; muna eftir handþvotti og spritti, fjarlægðarmörkum og fjöldatakmörkunum.

Veirufjandinn mun setja svip sinn á sumarið. Það er alveg óumflýjanlegt.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans.