„Þau eru hætt að rífast, deila nú í þögn,“ segir þingkona í samtali við Viljann um stöðuna innan ríkisstjórnarflokkanna, en Alþingi var frestað í gær, samkvæmt forsetabréfi um þingfrestun sem forsætisráðherra las upp og var samþykkt sem ályktun Alþingis.
Athygli vekur að utan EES-mála og málefna tengdum fjárlögum náðu stjórnarflokkarnir nánast engu fram fyrir jólafrestun; stóra málið um lög vegna neyðarástands í raforkumálum var skyndilega dregið til baka á laugardag og afgreiðslu þess frestað framyfir áramót.
Minnir þetta á lokadaga þingsins í vor, þegar ágreiningur innan stjórnarliðsins var öllum ljós og skyndilega var mörgum brýnum stjórnarfrumvörpum kippt til baka og þingi slitið. Lítið hefur frést af flestum þeirra síðan.
En hvað þýðir slíkt verkleysi fyrir fólkið í landinu og stjórnmálin yfirhöfuð?
Stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmenn sem Viljinn hefur rætt við undanfarna daga, viðurkenna að staðan sé furðuleg og erfitt sé að þetta gangi svona mikið lengur. Innbyrðisátök, misvel falin, taka mesta orku stjórnarliða og fyrir vikið er þjóðfélagið allt að líða fyrir kyrrstöðupólitíkina sem ræður ríkjum. Það sem eitt sinn átti að vera breitt stjórnarsamstarf þvert frá vinstri til hægri og yfir miðju stjórnmálanna með stuðning alls þorra almennings, hefur snúist upp í átakahóp sem litlu fær áorkað og horfir fram á fylgishrun frá mánuði til mánaðar.
Þess vegna gat ríkisstjórnin ekki afgreitt raforkumálin. Og ekki tryggt valdheimildir ríkissáttasemjara, þótt hún eigi mest undir því að sátt takist á vinnumarkaði til lengri tíma. Ráðherrar segjast bara í viðtölum vona að semjist við flugumferðarstjóra, jafnvel þótt stöðugleikinn sé undir og friður á vinnumarkaði.
Mesta pólitík einstakra ráðherra felst nú í að setja fram glærukynningar á blaðamannafundum eða kynna stefnur í samráðsgátt, oft án þess að hafa borið það fyrst undir samstarfsflokkana. Fæst af því mun nokkru sinni líta dagsins ljós sem stjórnarfrumvörp, hvað þá verða að lögum frá Alþingi.
Jólafrí þingsins mun standa til 22. janúar nk. Þingmenn úr öllum flokkum segjast alls ekki útiloka að stjórnin springi snemma á nýju ári. „Þrjú hljól undir bílnum, en áfram skröltir hann þó,“ var eitt sinn sungið og á vel við nú um ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Vandinn er að fleiri hjól eru við það að hrynja undan bílnum og að óbreyttu mun hann lenda úti í skurði. Það er óumflýjanlegt.