Vandinn í Valhöll

Án efa verður án efa athyglisverð stemning á flokkráðsfundi Sjálfstæðisflokksins á Hilton-hótelinu í dag. Tvær skoðanannanir í vikunni sýna ótrúlega stöðu, sem var samt svo fyrirsjáanleg, og ólíklegt er að enn einn samstöðufundurinn þar sem flokksmenn klappa hverjir öðrum á bakið fyrir góð störf og kvarta yfir vondum fjölmiðlum, breyti einhverju um þá alvarlegu stöðu sem flokkurinn hefur sjálfur komið sér í.

Forsætisráðherrann sagði í gær að flokkurinn þyrfti að koma sínum málum betur í gegn. Það er rangt hjá honum. Skilaboðin hafa heyrst, fólki líkar þau bara alls ekki. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru orðnir hundleiðir á því að styðja flokk sem segist vera til hægri á hátíðisdögum, en er svo vinstri sinnaður kerfisflokkur alla aðra daga. Veikur fyrir vókisma og búinn að gleyma sínu grundvallarerindi. Veldur þeim ítrekuðum vonbrigðum.

Á að skipta um formann?

Hin ætíð hjálplega Sigríður Andersen var hins vegar með svör á reiðum höndum í fréttum fyrr í vikunni: skipta um forystu og stefnu. Er það svo einfalt? Formaður flokksins og forsætisráðherra glímir við alvarlegan ásýndarvanda – hann er er reglulega valinn óvinsælasti stjórnmálamaður landsins og sá sem fólk treystir minnst.

Arfleifð hans eftir 10 ára fjármálaráðherratíð er viðvarandi halli á ríkissjóði, skuldasöfnun, hæstu vextir og mesta verðbólga hins vestræna heims. Framkoma hans í þá sex mánuði sem hann gengdi stöðu utanríkisráðherra var síðan hvorki til að auka hróður hans, né Íslands.

Og frá því hann tók aftur við sem forsætisráðherra hefur fylgi flokksins enn dalað jafnt og þétt – þvert á það sem Valhöll taldi að myndi gerast.

Varaformaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, geðþekk sem hún er, fór afar illa út úr hringekju Bjarna og ferðalag hans úr fjármálaráðuneytið yfir í forsætið með millilendingu í utanríkisráðuneytinu. Allt var það enda meira og minna á hennar kostnað og ef Þórdís skiptir ekki snarlega um kúrs, verður pólitískur ferill hennar senn á enda runninn.

Eitt tengir þó formanninn og varaformanninn órjúfanlegum böndum hvað varðar utanríkisráðuneytið og það eru annars vegar varnarmálin og hins vegar stuðningurinn við Úkraínu. Þar hafa bæði talað digurbarkalega, en eitthvað hefur staðið á efndunum. Varnir landsins eru ennþá reknar af lítilli skrifstofu í utanríkisráðuneytinu með þjónustusamningi við Landhelgisgæsluna. Fyrirkomulag sem Ríkisendurskoðun gerði verulegar athugasemdir við í skýrslu sinni fyrir tveimur árum. Rekstur Landhelgisgæslunnar, hins raunverulega óskabarns þjóðarinnar og sú ríkisstofnun sem þjóðin ber jafnan hvað mest traust til, er hins vegar allur í járnum. Um áramót mun núverandi forstjóri gæslunnar hafa gegnt því hlutverki í 20 ár, og mest allan tímann með ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem yfirmenn. Það var jú Björn Bjarnason sem réð hann á sínum tíma. Á þessum 20 árum hefur hvorki flokki né forstjóra tekist að tryggja að rekstur og geta Landhelgisgæslunnar sé í samræmi við þau mikilvægu verkefni sem henni ver að sinna. Síðast í gær var forstjórinn mættur í fjölmiðla að lýsa því yfir að Landhelgisgæslunni væri ekki sinnt sem skyldi og sæstrengir væru illa varðir.

Í tíð nýs dómsmálaráðherra hafa útlendingamálin eitthvað vænkast og breyting á lögum síðasta vetur eru farin að hafa jákvæð áhrif í því að tempra innkomu flóttafólks og hælisleitenda. Nokkuð sem virtist um um tíma nánast stjórnlaus málaflokkur. Allt gerðist það þó á vakt Sjálfstæðisflokksins og þýðir lítt fyrir flokkinn að flýja þá ábyrgð. Á það líkast til stærsta þáttinn í flótta fylgis frá Sjálfstæðisflokknum yfir til Miðflokksins, en Guðrún Hafsteinsdóttir hefur þó styrkt sig í sessi sem dómsmálaráðherra meðan hún er í eldlínunni í þessum málum.

Er tími Áslaugar Örnu kominn?

Háskólaiðnaðarnýsköpunarráðherrann hefur átt náðugri daga og stendur sig reyndar einna best í lamaðri ríkisstjórn og nýtur þess þá kannski helst að vera ekki í formlegri forystu flokksins og að hafa a.m.k. ekki verið að gera nein afgerandi mistök sem fengið hafa óþarfa athygli.

Er tími duglegasta ráðherrans nú kominn? Enginn efast um að bakland Áslaugar Örnu er sterkt, það hefur hún enda ræktað samviskusamlega en nú (helst í dag) þarf hún að segja einlæglega sinn hug gagnvart því ferðalagi sem flokkurinn hefur verið á.

Þá er það umhverfis- og orkumálaráðherrann sem geysist um á ofurhraða, svo mjög að eyða þarf myndum af samfélagsmiðlum jafnskjótt og þær eru birtar. Hann hefur sameinað stofnanir í sinni umsjá, þótt fjárhagslegur ávinningur af þeirri vinnu sé enn á huldu og verkefnið hans, að eigin sögn, er að rjúfa áralanga kyrrstöðu í orkumálunum. Hvernig gengur það verkefni?

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og orkumálaráðherra.

Það var auðvitað Guðlaugur Þór sem tapaði naumlega fyrir núverandi formanni þegar hann skoraði hann á hólm á landsfundi fyrir tæpum tveimur árum – í nóvember 2022. Eftir að hann var fjarlægður úr utanríkisráðuneytinu og settur í umhverfis- og orkumálin, sem varla var hægt að túlka öðruvísi en sem skref til þess að ýta honum úr pólitík. Hann svaraði fyrir sig með því að skora núverandi formann á hólm – og tapaði. Hann hlaut þó rúmlega 40% fylgi sem gerði það að verkum að hann varð ósnertanlegur á eftir. Formanninum hefði ekki verið stætt á því að víkja honum úr ráðherraliði flokksins í kjölfarið.

Rétt er að hafa í huga að þegar Guðlaugur Þór skoraði Bjarna Benediktsson á hólm voru rök hans helst þau að staða flokksins í skoðanakönnunum og niðurstöður flokksins í kosningum til Alþingis og sveitastjórna væru óásættanlegar. Síðan þá hefur hefur fylgið nánast helmingast. Hefði kannski flokknum verið hollara að skipta um mann í brúnni þegar þetta tækifæri gafst?

Á fundinum í dag verður reynt að tromma upp með pepp-ræður og auka fólki bjartsýni. Óánægja verður viðruð, en hvað svo? Hvert er planið? Ekki er skrítið að SUS auglýsi fyrir fundinn eftir slíku, en jafngott að þau ágætu samtök hafi loksins vaknað eftir Þyrnirósarsvefn.

Mun formaðurinn lifa af aðra hólmgöngu miðað við núverandi stöðu? Þar væri a.m.k. komið svar við hluta af áskorun Sigríðar Andersen. Hinn hlutinn hvað varðar stefnuna og næstu skref er kannski einfaldari. Þarf ekki flokkurinn fyrst og fremst að framfylgja stefnu sinni? Tala minna, gera meira? Og hætta í vonlausu stjórnarsamstarfi. Áður en skipið sekkur endanlega.