Tillaga Bergþórs Ólasonar og Miðflokksins um vantraust á matvælaráðherra, er gott dæmi um pólitísk klókindi. Þótt tillagan hafi verið felld, eins og alltaf var vitað, náði atkvæðagreiðsla um hana engu að síður að afhjúpa þá djúpstæðu gjá sem er millum stjórnarflokkanna í flestum málum.
„Þetta er pólitískur hildarleikur gerður til að reka fleyg á milli stjórnarflokkanna,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra í gær og það var auðvitað hverju orði sannarra. Hverju átti hún von á? Að Miðflokkurinn tæki að sér sérstakt hópefli fyrir ríkisstjórnina?
Gífurleg reiði er innan VG vegna ummæla Jóns Gunnarssonar og Óla Björns Kárasonar í atkvæðaskýringum, þar sem þeir fóru háðulegum orðum um samstarfsflokkinn.
Þar á bæ sýnist fólk haldið einhvers konar sjálfspíningarhvöt í þessu stjórnarsamstarfi, því áfram er alltaf haldið, enda þótt öllum sé ljóst að fleyið er hriplekt og kemst ekki á áfangastað.
VG ætlar að velja sér nýja forystu í haust. Um sama leyti eru allar líkur á að uppúr stjórnarsamstarfinu slitni vegna grundvallarágreinings í einhverju máli sem vandlega verður valið ofan úr hillunni.
Bjarni Benediktsson mun gera eiginlega allt til að halda þessu saman og engar líkur eru til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi frumkvæði að stjórnarslitum. Ekki framsókn heldur. Veiki hlekkurinn er VG sem er að þurrkast út; hefur haft ótrúlega mikil áhrif á stjórnarstefnuna en nýtur þess engan veginn hjá vinstri sinnuðum kjósendum vegna þess að hafa valið samstarf með Sjálfstæðisflokknum.
Pólitík er ekki endilega sanngjarn bransi, en hvorki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið. Margt þarf að breytast, eigi vinstrið aftur að líta á VG sem valkost í íslenskum stjórnmálum.
Og framsókn og Sjálfstæðisflokki verður refsað af kjósendum á miðjunni og til hægri fyrir að hafa boðið landsmönnum upp á þetta glataða sjónarspil í allt of langan tíma.