Veturinn nálgast

Ódauðleg eru einkennisorð Stark lávarðar og ættar hans, höfðingja Norðursins, í Krúnuleikunum (e. Game of Thrones) þess efnis að veturinn nálgist. Merkingin er sú að harðindi séu framundan; vá fyrir dyrum og margvíslegir erfiðleikar eftir skaplega tíð. Þessi viðvörunarorð komu í hugann á ritstjórn Viljans í dag, þegar þekktur áhrifamaður í íslensku viðskiptalífi, sem kýs að láta nafns síns ekki getið opinberlega, sendi inn svofelldar hugleiðingar:

„Það er alvöru vá fyrir dyrum í íslensku efnahagslífi. Mörg fyrirtæki eru komin í vandræði, eins og sést á hópuppsögn Controlant í dag [þar sem þriðjungi starfsfólks var sagt upp, 150 manns] og verðbólga og vaxtastigið er farið að bíta verulega í. 

Ekkert bendir til þess að Seðlabankinn fái aðstoð frá ríkisstjórninni við að hemja ríkisútgjöld og þess vegna veðja fæstir á miklar vaxtalækkanir í bráð. Heimilin í landinu hafa verið í gerviskjóli vegna aukinnar lántöku samfara breytingu yfir í verðtryggð húsnæðislán og gengi krónunnar er að verða að sjálfstæðu vandamáli sem gæti endað illa fyrir almenning.

Allir vita að stóratburðir eru að verða á alþjóðavettvangi og alvöru hætta á stórstyrjöld í eintölu eða fleirtölu með tilheyrandi fórnum en aukinheldur röskun á framleiðslu- og flutningskeðjum og hækkun vöruverðs á heimsmarkaði.

Eftir sumarið sem aldrei kom er hætta á hörðum vetri á ísa köldu landi.“