Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra lagði nú síðdegis fram skýrslu á Alþingi, þar sem færð eru rök fyrir mikilvægi þess að lögfesta frumvarp um bókun 35 við EES-samninginn. Málið hefur verið umdeilt innan ríkisstjórnarflokkanna og utan og tókst ekki að afgreiða það á vorþingi í fyrra. Skýrslan nú bendir til þess að ríkisstjórnin ætli sér að leggja aftur til atlögu fyrir þinglok nú.
Skemmst er að minnast þess að Sigríður Á. Andersen, fv. dómsmálaráðherra, sagði í pallborði í vefútsendingu Sjálfstæðisflokksins að loknum flokksráðsfundi sl. haust að sé ætlunin að leggja fram lagafrumvarp um bókun 35 í EES-samningnum verði það Sjálfstæðisflokknum mjög þungt og muni krefjast þess að þingmenn flokksins, allir sem einn, ekki bara utanríkisraðherrann, setji sig inn í málið og tali fyrir því af sannfæringu, ef menn hafa þá sannfæringu fyrir því.
Bókun 35 er svohljóðandi: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“
Sigríður Á. Andersen sat í hóp sem þáverandi utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, skipaði til að skrifa frumvarp um bókun 35.
Í upphafsorðum skýrslunnar, sem kynnt var í dag, segir:
„Stjórnarfrumvarp á 153. löggjafarþingi um breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (bókun 35) kveikti umræðu um tildrög og forsögu frumvarpsins. Ítarleg umfjöllun um þróun réttarframkvæmdar er í greinargerð með frumvarpinu. Í þessari skýrslu eru dregnir fram nokkrir lykilþættir í forsögu og forsendum málsins til að varpa frekara ljósi á nauðsyn þess að Alþingi láti sig málið varða.“
Með einhverjum hætti þurfi að leysa þetta vandamál
Ljóst er af efni skýrslunnar, að utanríkisráðherra telur að ekki verði komist hjá lögfestingunni:
„Mikilvægt er að forræði stjórnvalda á málinu sé tryggt og að lausnin sé á forsendum Íslands. Það liggur fyrir nánast samhljóða skoðun helstu sérfræðinga landsins að hægt sé að innleiða bókun 35 með skarpari hætti án þess að sett sé framsalsákvæði í stjórnarskrá. Þá er það álit allra helstu sérfræðinga landsins að frumvarp það sem lagt var fram á síðasta þingi brjóti ekki gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Er hér sérstaklega vísað til álits Þorgeirs Örlygssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar og fyrrverandi dómara við EFTA-dómstólinn vegna frumvarpsins.
Í framsöguræðu vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið (bókun 35) á 153. þingi kom m.a. fram í máli þáverandi utanríkisráðherra að eðli bókunar 35 eða skuldbindingar samkvæmt henni hafi ekki breyst og vandinn sem stjórnvöld og Alþingi standi frammi fyrir vegna innleiðingar og framkvæmdar á bókun 35 hafi verið til staðar í mörg ár. Starfshópar sem fjallað hafa um málið segi það sama og þetta megi einnig lesa úr fjöldanum öllum af fræðigreinum. Með einhverjum hætti þurfi að leysa þetta vandamál. Íslenskir dómstólar hafi aldrei komist að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn og skuldbindingar sem þar er að finna brjóti gegn stjórnarskrá eða að breyta þurfi stjórnarskrá til að viðhalda honum. Markmiðið með frumvarpinu hafi verið að standa við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem gerðar voru fyrir 30 árum. Þjóðþingið og stjórnvöld á þeim tíma hafi ákveðið að standa við tiltekið loforð með bókun 35. Loforð það átti að efna í EES-lögunum með orðalagi sem nú er ljóst að dugir ekki til að standa við það. Skoða skuli frumvarpið sem nú sé falið Alþingi til efnismeðferðar sem leið til að leysa þennan vanda, en þingið þurfi að taka afstöðu til þess.“