Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman til fundar í dag á Hilton Reykjavík Nordica. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur það hlutverk að marka stjórnmálastefnu flokksins ef ekki liggja fyrir ákvarðanir landsfundar.
Að þessu sinni kemur ráðið saman í skugga fylgishrun flokksins, dalandi stuðnings við ríkisstjórnina sem hann situr í og margvíslegra erfiða mála, t.d. verðbólgu og hárra vaxta, deilum um hælisleitendur, virkjunarmál og hvalveiðar. Svo aðeins fáeitt sé nefnt.
Athygli vekur að beinskeittasta og harðasta gagnrýnin sem sett er fram á ríkisstjórnina og Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana kemur frá flokksmönnum sjálfum. Þannig sér Viðskiptablaðið ástæðu tilað kosta nú dreifingu á pistli á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni: „Vonlaus utanríkisráðherra“ þar sem Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur eru ekki vandaðar kveðjurnar. Fyrir fáeinum dögum birti sama blað breiðsíðuárás á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og formann flokksins.
Sakar forystuna um forréttindablindu
Ragnar Önundarson, fv. bankamaður og gamalreyndur flokksmaður, sagði á fésbókinni í gær að það sé mikið alvörumál að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera að eyða sjálfum sér. „Mjög mikilvæg mál eru í sjálfheldu stjórnarsamstarfsins, hana þarf að rjúfa. Flokknum þarf að velja æðstu forystu sem ekki hefur fengið allt fyrirhafnalaust upp í hendurnar og þekkir lífsbaráttu venjulegs fólks.“
Og hann bætir við:
,,Forréttindablinda” er gagnlegt hugtak. Þegar fólk með litla lífs- og starfsreynslu þiggur vegsemd eða verðmæti, án þess að sjá hvernig aðrir sjá þetta, er um forréttindablindu að ræða.
Þegar Þórdís K. R. Gylfadóttir þáði að vera tekin fram fyrir reynsluboltann sem ávann sér fyrsta sæti lista flokks hennar á Vesturlandi og að vera gerð að ráðherra, var um slíka blindu að ræða. Það var ekki farsælt upphaf að pólitískum ferli og nærði etv. með henni ranghugmyndir um sjálfa sig, ofmat. Kjánalega myndin af henni og ljóshærðu vinkonunum sjö framkallar viðeigandi hroll.
Áslaug A. Sigurbjörnsdóttir var komin inn á þing áður en hún útskrifaðist. Fljótlega þáði hún að vera gerð að ráðherra, tekin fram fyrir nokkra reynslubolta. Frami hennar og fjölmiðlaljósið hafa blindað hana svo hún nær ekki að sjá sjálfa sig eins og kjósendur sjá hana. Að þiggja greiða eins og þyrluflug úr hendi undirmanns síns sýnir skort á lífsreynslu. Hún fékk reynslubolta sér til aðstoðar í ráðuneytinu og bætti þar með upp skortinn á starfsreynslu, en lífsreynsluna þarf hún að öðlast á sama hátt og aðrir, með því að reka sig á.
Formaður Sjálfstæðisflokksins steig sjálfur í feitina þegar hann braut reglur sem hann hafði sett almenningi vegna Kóvíd. Hann þarf að átta sig á að yfirborðs- eða sýndarmennska getur ekki leyst alvöru pólitík af hólmi. Stundum er unnt að plata alla um tíma, það er hægt að plata suma alltaf, en það er ekki mögulegt að plata alla alltaf. Kjósendur sjá í gegnum slíkt. Þeir sem sækjast eftir að leiða þjóðina verða að halda fókus, vera alvörugefnir. Sá sem hefur fengið allt upp í hendurnar, án fyrirhafnar, á erfitt með að skilja þetta.
Lífs- og starfsreynsla er ómissandi. Þeir sem þrá að standa i sviðsljósinu án viðeigandi reynslu reka sig á í sviðsljósinu. Það er ekki gaman.
Fulltrúaráðsfundur verður [í dag]. Verður tekið á „silkihúfunum“ með „silkihönskum?”