Áhugafólk um stjórnmál og þjóðfélagsmál almennt, hlýtur að klóra sér svolítið í hausnum yfir þróun mála á vinnumarkaði, þar sem samningsaðilar í Karphúsinu virðast löngu búnir að ná saman um helstu atriði og forsendur til samningagerðar, en á lokametrunum fer áherslan í að stilla ríki og sveitarfélögum upp við vegg til að bæta verulega í kjarapakkann til hliðar við launaliðinn.
Undanfarna daga hefur þannig sveitarfélögunum um allt land verið stillt upp við vegg: Annað hvort samþykkja allir gjaldfrjálsar skólamáltíðir, eða það verður ekkert af þjóðarsáttinni nýju!
Þetta er auðvitað stórmerkilegt, því hingað til hefur verið álitið að helstu breytingar í rekstri sveitarfélaga ætti að ræðast á því stigi og eftir lýðræðislega niðurstöðu. En nú stendur til að setja vel á þriðja tug milljarða í millifærslukerfin; nokkurs konar blöndu af áherslum VG og Samfylkingarinnar, að forskrift Stefáns Ólafssonar og Sjálfstæðisflokkurinn (sem fer með fjármálaráðuneytið) kokgleypir allt, eins og fyrri daginn.
Svo merkilegt sem það er, þá var það einmitt Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem viðraði fyrst möguleikann á gjaldfrjálsum skólamáltíðum í viðræðum við verkalýðshreyfinguna. Þegar sá gluggi hafði opnast, varð sú hugmynd að „ófrávíkjanlegri kröfu“ verkalýðshreyfingunni sem nú stillir öllum upp sem eru með einhvern moðreyk, eins og t.d. þann að e.t.v. sé ekki eðlilegt að vel stæðir foreldrar fái slíkan stuðning eða að einstök sveitarfélög hafi ekki efni á slíkri þjónustu.
Hinn 23. nóvember sl. lögðu nokkrir þingmenn VG fram þingsályktunartillögu um… hvað haldið þið? Jú, gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna heildstæða stefnu um daglegar, gjaldfrjálsar, næringarríkar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.“
Þannig hljóðaði sú tillaga, sem nú er að verða að veruleika. Ekki með hefðbundnum hætti eftir vinnu innan ríkisstjórnar eða á þingi, heldur með því að skella einföldu og vinsælu baráttumáli VG inn í kjarapakkann og láta verkalýðshreyfinguna svo krefjast þess að það verði strax að veruleika.
Þetta er auðvitað til marks um pólitíska snilld Katrínar Jakobsdóttur, sem stýrir öllu sem henni sýnist í þessu samstarfi. Sá ráðherra stjórnarinnar, sem stendur henni næst að völdum, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, er einmitt að snúa fljótlega aftur til vinnu eftir veikindaleyfi og hún rauf þögn sína á samfélagsmiðlum í gær, með því að undirstrika að þarna væri baráttumál VG að verða að veruleika.
Hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn er hættur að stunda almenn stjórnmál og orðinn afgreiðslustofnun fyrir VG í sínum 4,7% er ein af stærstu ráðgátum stjórnmálanna um þessar mundir. Stefna VG gildir í orkumálum, útlendingamálum, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og þannig má áfram telja.
En er á meðan er, og VG fær allan heiðurinn af kjarapakkanum sem nú stendur til að fara að kynna, en ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sitja uppi með reikninginn og fýluna.
Í sjöþúsundasta skiptið…