Útspil Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, í hælisleitendamálum vakti mikla athygli í vikunni, en ekki eru allir flokksmenn hennar sáttir. Sumir eru raunar mjög ósáttir. Einhverjir hafa jafnvel sagt sig úr flokknum, eða lýst því yfir að þeir geti ekki kosið hann eftir þessa stefnubreytingu. Með fylgið í hæstu hæðum í könnunum, er þó líklegast að formaðurinn hafi sitt fram og þetta sé dæmi um „Nýju Samfylkinguna“ sem sé óðum að fjarlægjast þeirri gömlu.
Brynjar Níelsson, fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á það í gær, að samflokksmenn Kristrúnar á þinginu hafi ekki verið á þeirri línu sem hún boðar nú. Þeir hafi þvert á móti „verið fjarverandi þegar kemur að kjarki og horfast í augu við veruleikann. Maður spyr sig hvaða samleið Kristrún eigi með öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, annað en ást á skattahækkunum, sem hafa barist harkalega gegn öllum tillögum frá dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins til að koma einhverju skikki á þessi mál og samræma regluverkið við önnur lönd. Ekki hefur skort stóryrðin hjá í þeirri baráttu, bæði á þingi og í fjölmiðlum.“
Risastór kúvending
Þessi gagnrýni Brynjars er ekki tilefnislaus. Þetta er risastór kúvending hjá stjórnmálaflokki sem fyrir nokkrum árum var með Semu Erlu Sardaroglu, aðjúnkt og formann Solaris, sem formann framkvæmdastjórnar.
Frægt er þegar Helga Vala Helgadóttir, sem þá var þingmaður Samfylkingarinnar, gekk frá sætum þingmanna á Þingvöllum er Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, hóf ræðu á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum árið 2018. Helga Vala vildi með því að mótmæla áherslum Kjærsgaard í útlendingamálum.
Logi Einarsson, sem var formaður Samfylkingarinnar á undan Kristrúnu, hefur líka oft tekið í svipaðan streng. Þannig gagnrýndi hann Mette Frederiksen, formann danska jafnaðarmannaflokksins (systurflokk Samfylkingarinnar) eftir kosningasigur þeirra í Danmörk fyrir fáum árum, þar sem hann sagði ánægjulegt að rauða blokkin hefði borið sigur úr býtum, en harmaði að það hefði ekki verið „á réttum forsendum“. Logi lýsti þá oft síðan sig vera algjörlega ósammála áherslum sem Metta og danskir jafnaðarmenn hefðu boðað í innflytjendamálum.
Frederiksen er nú forsætisráðherra Dana og rekur mun harðari útlendingapólitík, en íslenskir jafnaðarmenn hafa viljað standa fyrir. Eða kannski þar til nú. Karen Kjartansdóttir, fv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir útspil Kristrúnar vera „sjokkerandi“. Og hún bætir við: „Það er er svo magnað að eftir að hafa þagað svona lengi hafi þetta verið það sem henni lá á hjarta.“
Sjá einnig: Gamla Samfylkingin talar um skömm stjórnvalda en sú nýja segir ekki neitt
Útspils Kristrúnar í hælisleitendamálum hafði verið lengi beðið. Þó hefur hún talað í þessa veru í vinnustaðaheimsóknum og á ýmsum smærri fundum, þannig að ekki fór á milli mála að hún væri á annarri skoðun en ýmsir þingmenn flokksins. Að ekki sé talað um Helgu Völu Helgadóttur. Varla getur neinn lengur undrast að hún hafi axlað óvænt sín skinn í fyrra og hætt á þingi og snúið sér aftur að lögmennsku.
„Ég hef svo sem aldrei verið í Samfylkingunni nema einhvern tíma kringum formannskjör fyrir tveimur áratugum en ég hef kosið flokkinn fram að þessu. Mér sýnist að það verði ekki aftur á næstunni,“ skrifar Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus á samskiptamiðlum
Einar Kárason, rithöfundur og fv. þingmaður Samfylkingarinnar, er hins vegar ánægður með formanninn sinn. „Allt rétt sem Kristrún segir. Og kjarkmikið af hennar hálfu, því við vitum hvernig óþverrinn í hennar garð mun hljóma frá þeim sem tala fyrir bull á borð við „open borders.““
Hvað með samþykkt landsfundar?
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og eiginmaður Helgu Völu, undrast að formaður Samfylkingarinnar geti bara einn tilkynnt um stefnubreytingu heils flokks. „Algjör óþarfi að blanda hælisleitendum og opnum landamærum í umræðu um velferðarríkið. Við höfum í áratugi trassað velferðina löngu fyrir einhverja móttöku flóttamanna. Fólk var flutt hreppaflutningum á hjúkurnarheimili 300 km frá heimilum sínum þegar hælisleitendur ári voru bara 50 og ákvörðun um að byggja ekki nýja geðgeild var tekin þegar hælisleitendur voru 30. Jaðarsetning fátækra hefur keyrð áfram full force sl. áratugi líka árið 1980 þegar Nguyễn Kim þufti að taka upp nafnið Stefán Árni við komuna til Íslands,“ segir hann og bendir á að landsfundur Samfylkingarinnar, hafi samþykkt aðrar áherslur á landsfundi fyrir rúmu ári síðan.
Þar kemur þetta m.a. fram:
„Samfylkingin vill ráðast í gagngera endurskoðun á útlendingalöggjöfinni og móttökukerfi umsækjenda um alþjóðlega vernd með mannúð að leiðarljósi og hliðsjón af mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur staðfest. Harka gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd stríðir gegn grunngildum okkar um samhygð og samstöðu.“
Grímur bætir við að vera kunni „að fólk vilji loka landamærunum enn frekar (þau eru mjög lokuð miðað við flest ríki í Evrópu) en ef Samfylkingin ætlar að breyta stefnu í málaflokknum þá er það landsfundar að ákveða það. Formaður og aðrir sem gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn eiga að fara eftir stefnu og samþykktum flokksins.“
Málið er semsé ekki útrætt á vinstri vængnum, en formaður Samfylkingarinnar hefur að minnsta kosti opnað umræðuna og lætur Sigmund Davíð og Miðflokkinn og Bjarna Benediktsson og fleiri þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins ekki eina um það lengur.
Það er eitthvað.